Fótbolti

Ancelotti: Myndi aldrei þjálfa Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Ítalinn Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, segir að það kæmi aldrei til greina hjá sér að taka að sér þjálfun Barcelona. Liðin mætast í risaslag helgarinnar í spænsku úrvalsdeildinni, El Clasico.

Aðeins tveir menn hafa stýrt báðum liðum - Radomir Antic og Enrique Fernandez. En Ancelotti segir að hann beri of mikla virðingu fyrir sögu þessara tveggja liða að hann geti svikið lit.

„Nú þegar ég hef þjálfað Real Madrid get ég aldrei starfað fyrir Barcelona,“ sagði Ancelotti við fjölmiðla á Spáni. „Ég verð að bera virðingu fyrir minni sögu og sögu þeirra félaga þar sem ég hef starfað.“

Hann var einnig spurður að því hvort hann gæti ímyndað sér að starfa jafn lengi fyrir Real Madrid og Sir Alex Ferguson gerði fyrir Manchester United.

„Það er óhugsandi að ég verði í 24 ár hjá félaginu en ég vil gjarnan starfa hjá Real Madrid út minn starfsferil.“

Leikur liðanna á morgun hefst klukkan 16.00 á morgun og verður vitanlega sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Ancelotti segist bera virðingu fyrir liði Luis Enrique.

„Ég horfði á leik liðsins [gegn Ajax] í Meistaradeildinni í vikunni og eins og alltaf reyni ég að finna veikleika í þeim liðum sem ég horfi á. En lukkan var ekki með mér í þetta skiptið - ég fann ekki marga galla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×