Körfubolti

Öll Íslendingaliðin töpuðu í sænska körfuboltanum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson skoraði sautján stig.
Jakob Örn Sigurðarson skoraði sautján stig. vísir/valli
Íslendingaliðin þrjú í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta; Sundsvall Dragons, LF Basket og Solna Vikings, töpuðu öll í þriðju umferð deildarinnar í kvöld.

Drekarnir spiluðu í fyrsta sinn á tímabilinu á heimavelli en töpuðu með ellefu stiga mun gegn Södertälje Kings, 77-66.

Aðeins munaði tveimur stigum á liðunum í hálfleik, 34-32, en Kóngarnir unnu þriðja leikhlutann 23-26 og lögðu þannig grunninn að öruggum sigri. Drekarnir með tvö stig eftir þrjá leiki.

Jakob Örn Sigurðarson var bestur Íslendinganna með 17 stig og 2 fráköst, HlynurBæringsson skilaði 11 stigum og 7 fráköstum, RagnarNathanaelsson skoraði 6 stig og tók 6 fráköst og Ægir Þór Steinarsson skoraði 2 stig, tók 3 fráköst og gaf 1 stoðsendingu.

Haukur Helgi Pálsson og félagar í LF Basket töpuðu á útivelli gegn Uppsala Basket, 89-81, en LF er þjálfað af Peter Öqvist, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands.

Rétt eins og hjá Sundsvall var allt í járnum í hálfleik og gestirnir í LF Basket yfir, 45-42. En Uppsala vann þriðja leikhlutann 25-12 og stóð af sér áhlaup gestanna í síðasta leikhlutanum.

Haukur Helgi Pálsson var öflugur í liði LF Basket, en han skoraði 14 stig, tók 6 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þetta var fyrsta tap liðsins í deildinni, en það er með fjögur stig.

Þá töpuðu Sigurður Gunnar Þorsteinsson og félagar hans í Solna Vikings með tveggja stiga mun, 100-102, gegn Borås Basket á heimavelli. Leikurinn var gríðarlega spennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en á loka andartökum leiksins.

Ísafjarðartröllið spilaði í 34 og hálfa mínútu í leiknum og skilaði tveimur stigum, átta fráköstum og tveimur stoðsendingum. Solna er án sigurs eftir þrjár umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×