Innlent

Börn á skólaaldri áttu í samskiptum við ebólusmitaðan mann í Texas

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ebólufaraldur geisar nú í Afríku. Maðurinn sem greindist í Bandaríkjunum var nýverið á ferð í Líberíu.
Ebólufaraldur geisar nú í Afríku. Maðurinn sem greindist í Bandaríkjunum var nýverið á ferð í Líberíu. Vísir / AFP
Grunur er uppi um að börn á skólaaldri hafi verið í samskiptum við ebólusmitaðan mann í Texas í Bandaríkjunum. Maðurinn er nú á spítala þar sem hann hlýtur viðeigandi meðferð. Þetta sagði Rick Perry, ríkisstjóri Texas, í dag.

Búið er að hafa uppi á öllum börnunum og eru þau nú undir eftirliti. Fylgst er með því hvort þau sýni einhver merki ebólusmits. Það hefur ekki gerst ennþá.

 

Greint var frá því í gær að maðurinn hefði greinst með ebólu en hann hafði nýverið verið á ferð í Vestur-Afríku þar sem nú geisar ebólufaraldur. Þetta er fyrsta staðfesta ebólusmitið í Bandaríkjunum eftir að faraldurinn braust út.

Maðurinn leitaði sér fyrst aðstoðar á sjúkrahúsi við slappleika síðastliðinn föstudag. Hann var útskrifaður án greiningar en fékk ávísuð sýklalyf. Hann var svo fluttur með sjúkrabíl á spítala tveimur dögum síðar þar sem hann var greindur með ebólu.

Sjúkraflutningamennirnir sem fluttu hann á spítala hafa verið í einangrun frá því að smitið greindist en þeir hafa ekki sýnt nein merki þess að vera sjálfir smitaðir.

Lítil hætta er talin á að ebólufaraldurinn breiðist um Texas í kjölfar þessa en sjúkdómurinn berst aðeins á milli manna með snertingu við líkamsvessa sýkts einstaklings.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×