Golf

McIlroy: Ekki vanmeta hina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
McIlroy á blaðamannafundinum í dag.
McIlroy á blaðamannafundinum í dag. Vísir/Getty
Rory McIlroy, efsti maður heimslistans í golfi, segir að það yrðu mistök fyrir bandaríska liðið að einbeita um of á hann og Ian Poulter.

McIlroy hefur verið að spila best allra í ár en hann vann bæði Opna breska og PGA-meistaramótið í ár.

Þá hefur Poulter náð frábærum árangri í Ryder-keppninni í gegnum tíðina og fengið átta stig af ellefu mögulegum á ferlinum.

„Ég veit að Tom Watson [fyrirliði bandaríska liðsins] hefur verið að tala um að setja sína bestu menn á okkur en það eru aðrir tíu heimsklassakylfingar í okkar liði.“

„Þeir mega einbeita sér að okkur eins mikið og þá lystir en það eru aðrir í okkar liði sem geta skilað alveg eins góðu dagsverki.“

Keppnin hefst á föstudag og mun McIlroy taka fyrsta höggið. „Mér er sama með hverjum ég spila eða á móti hverjum. Ég er bara hluti af þessu liði og það er á minni ábyrgð að safna stigum fyrir Evrópu.“

Hann segir að undirbúningur liðsins fyrir keppnina hafi verið svipaður og undanfarin ár. „Það hefur virkað vel enda höfum við unnið sjö af síðustu níu keppnum.“

Sýnt verður beint frá mótinu á Golfstöðinni. Opnunarhátíðin verður sýnd á morgun klukkan 15.00 og svo hefjast beinar útsendingar frá keppninni á föstudagsmorgun klukkan 06.30.


Tengdar fréttir

Fowler rakar „USA“ í hárið

Bandaríski kylfingurinn Rickie Fowler mætti ásamt liðsfélögum sínum í bandaríska liðinu til Skotlands í dag þar sem Ryder-bikarinn hefst formlega á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×