Um sextíu skjálftar mældust við eldsumbrotasvæðið norðan Vatnajökuls í nótt. Sá stærsti var laust eftir klukkan þrjú í nótt, eða 4,5 að stærð. Þrettán skjálftar mældust við Bárðarbunguöskjuna, um tuttugu og sjö í norðanverðum ganginum og um tuttugu við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Allir voru þeir þó undir 2 að stærð, að undanskildum fyrrgreindum skjálfta við Bárðarbungu.
Þá má búast við gasmengun vestan og norðvestan gosstöðvanna í dag en mengunarsvæðið kemur líklega til með að færast sunnar á morgun. Samkvæmt Veðurstofu Íslands hafa íbúar á Vestfjörðum tilkynnt um mistur, sem ekki er útilokað að eigi upptök í eldgosinu. Ekki er hægt að útiloka að mengunarinnar verði vart á stærra svæði.
