Fótbolti

Platini fer ekki fram gegn Blatter

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Platini og Blatter. Allt bendir til þess að sá síðarnefndi sitji áfram sem forseti FIFA.
Platini og Blatter. Allt bendir til þess að sá síðarnefndi sitji áfram sem forseti FIFA. Vísir/Getty
Michel Platini, forseti UEFA (Evrópska knattspyrnusambandsins), mun ekki bjóða sig fram gegn sitjandi forseta FIFA, Sepp Blatter. Þetta tilkynnti hann á fundi allra 54 knattspyrnusambandanna í Evrópu í Monte Carlo í dag.

Platini, sem tilkynnti fyrr í sumar að hann myndi ekki styðja Blatter til endurkjörs á næsta ári, segist vilja einbeita sér að starfi sínu hjá UEFA.

„Hvorki ég né mínar tilfinningar skipta máli,“ sagði Frakkinn á blaðamannafundi í dag. „Framtíð UEFA og fótboltans er það sem skiptir máli. UEFA og evrópskur fótbolti hafa aldrei verið jafn öflug og nú og við viljum halda þeirri stöðu,“ sagði Platini ennfremur.

Sepp Blatter hefur setið á forsetastóli FIFA frá árinu 1998, en þessi 78 ára gamli Svisslendingur hyggst bjóða sig fram til endurkjörs á næsta ári.

Blatter og FIFA hafa lengi legið undir ámæli vegna spillingarmála, en þrátt fyrir andstöðu Evrópu nýtur Blatter enn stuðnings hinna fimm heimsálfanna.

Fresturinn til að bjóða sig fram til forseta FIFA rennur út í janúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×