Innlent

Háskólamenn kvarta undan yfirgangi Hannesar

Jakob Bjarnar skrifar
Hannes Hólmsteinn. Starfsmönnum stjórnmálafræðideildar var boðið í viðtal við Einar Gylfa Jónsson sálfræðing og mikill meirihluti þeirra kvartaði undan yfirgangi af hálfu Hannesar, að sögn DV.
Hannes Hólmsteinn. Starfsmönnum stjórnmálafræðideildar var boðið í viðtal við Einar Gylfa Jónsson sálfræðing og mikill meirihluti þeirra kvartaði undan yfirgangi af hálfu Hannesar, að sögn DV.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur verið leystur undan stjórnunarskyldum við Háskóla Íslands gegn vilja sínum. DV greinir frá þessu í dag.

Ákvörðun um þetta var tekin nokkru eftir að sálfræðistofan Líf og sál skilaði skýrslu en afgerandi er talið að langvarandi samstarfsörðugleikar í Háskólanum megi að miklu leyti rekja til framgöngu og framkomu Hannesar Hólmsteins. Starfsmönnum stjórnmálafræðideildar var boðið í viðtal við Einar Gylfa Jónsson sálfræðing og mikill meirihluti þeirra kvartaði undan yfirgangi af hálfu Hannesar, að sögn DV.

Fram kemur í skýrslunni að yfirstjórn háskólans beri lagaleg skylda til að bregðast við framkomu prófessorsins, enda sé ástandið í stjórnmálafræðideild óviðunandi. Í samtali við fréttastofu tók Hannes það skýrt fram að hann vildi ekki tjá sig um fréttir DV og ætlaði sér ekki að ræða störf sín hjá hinum ágæta vinnustað, Háskóla Íslands.

Uppfært 09:20

Vísir leitaði viðbragða við frétt DV hjá Daða Má Kristóferssyni, forseta félagsvísindasviðs, en hann vildi ekki tjá sig um málefni einstakra starfsmanna en ekki var á honum að skilja að Hannesi hafi verið skákað út í horn í Háskólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×