Fótbolti

Ísland upp um 84 sæti á tveimur árum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfarar Íslands.
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfarar Íslands. Vísir/Daníel
Nýr styrkleikalisti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, var gefinn út í morgun en þar situr Ísland í 47. sæti.

Ísland hoppar upp um fimm sæti eftir 1-0 sigur á Eistlandi í byrjun síðasta mánaðar en liðið hefur aðeins einu sinni verið ofar á síðustu árum. Það var í október í fyrra er liðið komst upp í 46. sæti.

Ísland náði sögulegri lægð í apríl árið 2012 er það féll niður í 131. sæti listans. Lars Lagerbäck var þá nýtekinn við liðinu sem tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum - æfingaleikjum gegn Japan og Svartfjallalandi - undir hans stjórn.

Eftir það hefur uppgangur liðsins verið mikill og síðan í september í fyrra hefur liðið aldrei fallið neðar en í í 58. sæti. Þess má geta að Japan er í 45. sæti listans nú og Svartfjallaland í 50. sæti.

Ísland nálgast nú sinn besta árangur á listanum en efst komst liðið í 37. sæti árið 1994.

Næsti landsleikur verður gegn Tyrklandi í undankeppni EM 2016 í september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×