Tónlist

Poppkóngurinn lifir

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Fimm ár eru síðan poppkóngurinn Michael Jackson lést fyrir aldur fram.

Þegar hann dó var hann á barmi gjaldþrots en síðan hann féll frá hefur hann þénað tæplega áttatíu milljarða króna – meira en nokkur núlifandi listamaður á svo skömmum tíma.

Michael Jackson hf.

Vörumerkið Michael Jackson hefur svo sannarlega blómstrað frá því hann lést eins og kemur fram í nýrri bók, Michael Jackson Inc. eftir Zack Greenburg.

„Michael Jackson þénar meiri peninga nú, fimm árum eftir dauða hans, en hann hafði gert síðan hann var á hátindi síns ferils,“ segir Zack í viðtali við Telegraph.

Í bók hans kemur fram að vörkumerkið Michael Jackson, sem rekið er af móður Jacksons, Katherine Esther Scruse og börnunum hans þremur, hefur halað inn um sjö hundruð milljónum síðan hann lést, tæplega áttaíu milljörðum króna. Segir Zack að það sé meira en nokkur núlifandi listamaður hefur þénað á svo stuttum tíma.

Þó að Jackson hafi þénað um sjötíu milljónir dollara á ári þegar hann var uppá sitt besta, tæpa átta milljarða króna, var hann í miklum fjárhagskröggum þegar hann lést og var dánarbú hans í rúmlega fimm hundruð milljóna dollara skuld, tæplega sextíu milljarða króna. Þá tóku skiptaráðendur dánarbúsins málin í sínar hendur. Samningur var gerður um útgáfu myndarinnar This Is It sem fylgdist með því sem átti að verða næsta tónleikaferðalag kóngsins áður en hann féll frá. Nokkrum mánuðum eftir dauðdaga hans var einnig skrifað undir plötusamning við Sony upp á tvö hundruð milljónir dollara, tæpa 23 milljarða króna, samkvæmt The Wall Street Journal. Plötusamningurinn hljóðaði uppá sjö plötur á tíu árum. Þá voru gerðir samningar við Cirque du Soleil um sýninguna Michael Jackson: The Immortal World Tour.

„Sama hvar andi poppkóngsins er er eitt á hreinu: Michael Jackson hf. er á góðu róli,“ skrifar Zack í bók sinni.

Neverland í niðurníslu eftir andlátið

Michael Jackson keypti búgarðinn Sycamore Valley árið 1988 og nefndi hann Neverland, eða Hvergiland, með vísan í Peter Pan, uppáhalds sögupersónu goðsins.

Reglulega skjóta sögusagnir upp kollinum um að Neverland verði breytt í eins konar safn til minningar um poppkónginn líkt og Graceland, glæsihýsið sem Elvis Presley kallaði heimili sitt. Fjölskylda Jacksons hefur hins vegar vísað þessum sögum á bug.

Þrátt fyrir það heimsækir fjöldinn allur af aðdáendum búgarðinn á ári hverju, eingöngu til að berja hann augum fyrir utan læst hlið.

Fasteignafyrirtækið Colony Capital LLC á hluta í búgarðinum á móti Jackson-fjölskyldunni og segir talsmaður fyrirtækisins, Caroline Luz, að búgarðinum sé haldið við.

Jackson bjó á búgarðinum fram til ársins 2005 þegar hann var sýknaður af ásökunum um barnaníð á búgarðinum. Hann valdi að búa annars staðar þangað til hann lést árið 2009 og lét elsti sonur goðsins, Prince, hafa eftir sér í fyrra að hann teldi að búgarðurinn hafi verið eyðilagður fyrir föður sínum vegna ásakananna.

Rétt eftir andlát kóngsins var Neverland í niðurníðslu en heimsókn á búgarðinn tók svo á Paris, dóttur Jacksons, að hún ákvað að taka búgarðinn í gegn á síðasta ári. Tívolítækin sem eitt sinn prýddu búgarðinn heyra sögunni til og í staðinn er þar að finna hugleiðslugarð og Péturs Pan-skreytingar.

Reyndi sjálfsmorð fimmtán ára

Poppkóngurinn eignaðist þrjú börn: Michael Joseph Jackson, Jr., betur þekktur sem Prince Michael Jackson I, sautján ára, Paris-Michael Katherine Jackson, sextán ára og Prince Michael „Blanket“ Jackson II, tólf ára. Eldri börnin tvö átti Michael með Debbie Rowe en ekki er ljóst hver móðir Blankets er.

Eftir andlát goðsins fékk móðir hans, Katherine, forræði yfir börnunum þremur en Debbie fékk heimsóknarrétt. Árið 2012 skiptu Katherine og T.J. Jackson, sonur Titos Jackson, bróður Michaels, með sér forræði yfir þeim.

Prince varð fréttamaður hjá Entertainment Tonight árið 2013. Hann þreytti frumraun sína í leiklist í sjónvarpsseríunni 90210 sama ár og hefur lýst því yfir að hann vilji leika meira.

Paris vill líka feta leiklistarbrautina og leikur í Lundon‘s Bridge and the Three Keys sem er væntanleg á næsta ári. Árið 2013 reyndi hún að fremja sjálfsmorð með því að gleypa tuttugu verkjatöflur og skera úlnlið sinn með kjötsaxi. Í kjölfarið var hún send í meðferð í heimavistarskólanum Diamond Ranch Academy í Utah.

Prince, Paris og Blanket, ásamt ömmu sinni, settu saman heimildarmyndina Remembering Michael árið 2013 sem var hægt að horfa á á netinu gegn tíu dollara gjaldi.

Tvær plötur gefnar út eftir andlátið

Michael (2010)

Átta af tíu lögum á plötunni voru samin af Michael sjálfum. Flest laganna voru tekin upp á árunum 2007 til 2009. Aðdáendur og fjölskylda Jacksons hefur hins vegar efast um að þrjú lög á plötunni sem tekin voru upp í kjallara Eddie Cascio, Breaking News, Keep Your Head Up og Monster, séu í raun sungin af Michael. Sony hefur vísað þessum ásökunum á bug. Þá voru margir sem gagnrýndu útgáfu plötunnar og héldu því fram að Jackson hafi verið fullkomnunarsinni og hefði ekki viljað gefa út efni sem væri óklárað.

Xscape (2014)

Á plötunni eru áður óútgefin lög eftir poppkónginn en á henni eru átta lög, þar á meðal Love Never Felt So Good, dúett með Justin Timberlake. Það var upprunalega tekið upp af Michael árið 1983. Platan fór á topp vinsældarlista í Bretlandi, Belgíu, Danmörku, Frakklandi og Spáni. Í Bandaríkjunum fór platan beint í annað sæti.

Vísir/GVA
Hóaði vinkonunum saman í erfidrykkju

„Ég gleymi aldrei stað og stund þegar ég frétti af andláti poppkóngsins en það var í 10-fréttum Sjónvarpsins og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir kom því að í lok fréttatímans að fregnir hermdu eftir erlendum fréttaveitum að Michael Jackson hefði látist á heimili sínu fyrr um kvöldið,“ segir fjölmiðlafræðingurinn Erla Gunnarsdóttir, einn gallharðasti aðdáandi Michaels Jackson á Íslandi. Hún segir að fátt hefði getað búið hana undir þessar óvæntu fréttir.

„Ég man að ég fraus um stund og trúði ekki mínum eigin eyrum og síðan helltist yfir mig eins konar tóm sem er erfitt að lýsa. Síðan kom sorgin í öllu sínu veldi og ég fór til baka til æskuáranna í huganum en ég var ekki nema níu ára gömul þegar hann varð að átrúnaðargoði mínu fyrir lífstíð. Þá eimdi enn af velgengni Thriller-plötunnar og það styttist í næsta meistaraverk sem var Bad og kom út árið 1987.“

Erla náði þó að gera gott úr hlutunum, þó draumar hennar um að hitta poppgoðið hefðu orðið að engu á augabragði, og hyllti kónginn eins og henni einni er lagið.

„Það var ekkert annað að gera en að hóa æskuvinkonunum heim í erfidrykkju. Þar var kóngsins minnst með dansi og söng á pallinum fram á nótt og að sjálfsögðu voru tekin fram nokkur gömul plaköt til að skreyta veggi og borð með. Ein vinkonan keypti sér meira að segja sérstakan Jackson-hatt fyrir kvöldið til að vera gjaldgeng í danssyrpu kvöldsins. Algjörlega ógleymanleg erfidrykkja,“ segir Erla með bros á vör. Hún keypti sér miða á tónleika Jacksons í London sem voru hluti af tónleikaferðalaginu This Is It sem átti að hefjast 13. júlí árið 2009.

„Ég keypti mér miða á þá með tæplega árs fyrirvara og ég man að ég eyddi drjúgum tíma við tölvuna til að finna miða á besta stað á tónleikunum. Það var mikið álag á miðasölukerfinu, daginn sem salan á This Is It-tónleikaröðina fór af stað en mér tókst að lokum að næla mér í miða og var himinlifandi að hafa tekist það, þetta var saga til næsta bæjar. Ekki var nú verra þegar ég fékk hann í hendurnar, enda glæsilegasti tónleikamiði sem ég hef nokkurn tíma séð. Ég á hann enn og held mikið upp á hann og mér fróðari menn segja að hann geti orðið verðmætur þegar fram líða stundir.“

Erlu dreymir um að heimsækja búgarð Jacksons, Neverland.

„Kóngurinn lifir svo sannarlega enn í hjarta mér og mun gera um ókomna tíð enda einn mesti og merkasti listamaður sem jörðin hefur alið. Ég el þá von í brjósti að í nánustu framtíð verði búgarður Jackson gerður að safni og þá verður mitt fyrsta verk að bjóða fjölskyldunni með í pílagrímsför til Hvergilands.“

Vísir/GVA
„Hann dó af því hann dansaði svo mikið!“ 

„Ég var að dansa á Borginni 1980 þegar Don’t Stop ´Till You Get Enough kom allt í einu ofan úr loftinu. Í miðju pönki og nýbylgju var það eins og tónlist frá öðrum hnetti en ég heillaðist strax. Þetta var svo allt annað grúv,“ segir rithöfundurinn Hallgrímur Helgason sem heldur mikið upp á poppgoðið.

„Einhvernveginn hafði ég misst af þessari barnastjörnu allan áttunda áratuginn, útvarpið okkar spilaði ekki svoleiðis tónlist og kanaútvarpið var greinilega alveg hvítt í þá tíð. Síðan kom Thriller tveimur árum síðar og í kjölfarið þetta legendary kvöld þegar hann tók „Billie Jean“ á 25 ára afmælishátíð Motown. Þótt margir viðurkenndu að þetta væri vel gert þótti nú alltaf hálf hallærislegt að fíla Jackson, sem gerði hann auðvitað meira spennandi. Í þá daga var alltaf meira seif að segjast vera Prince-maður.“

Hallgrímur var svo heppinn að sjá Jackson á tónleikum í Madison Square Garden í New York.

„Það var Bad-túrinn og ég var eini hvíti maðurinn í salnum, fyrir utan hann sjálfan, en hann var farinn að fölna vel þá. Síðan hvarf hann lengra og lengra inn í sérviskuþokuna og var orðinn síðasta sort undir lokin en bjargaði sér með því að deyja. Þá tók almenningur við sér og hann varð loks viðurkenndur alla leið, líka af popp-fræðingunum. Þá hætti ég hinsvegar að hlusta á hann, fyrr en í París um daginn að ég fór á þrjá fína restauranta í röð og allstaðar var verið að spila MJ. „Nýja lagið“ með honum og Timberlake er líka frábært, mikill gleðisveimur,“ segir Hallgrímur. Hann var í Hrísey þegar hann fékk fregnir af andláti stjörnunnar en dóttir hans var með á hreinu af hverju hann lést.

„Ég var þarna einn með yngstu börnin mín og daginn eftir vaknaði dóttir mín, þá 4 ára, með útskýringu á dauða hans sem hún endurtók allt sumarið: „Hann dó af því hann dansaði svo mikið!“ Fyrir mér var hann mikill gleðigjafi og dæmi um snilld í sínum geira. Ég hef nú samt alltaf efast um að popptónlist geti orðið klassísk, en núna, þrjátíu árum síðar hefur samt lítið fallið á lag eins og Wanna Be Startin’ Something.“

Uppáhaldslag rithöfundarins er Workin‘ Day and Night. Hann segir æviágrip hans í raun harmsögu.

„Fyrir mér er Jackson enn ráðgáta, heillandi ráðgáta. Hlutskipti hans var í grunninn harmrænt, þrátt fyrir alla frægðina. Maður þóttist skilja hann eitthvað betur eftir að hafa séð kvikmyndina Farinelli um árið, um frægasta castrato-söngvara Ítalíu á átjándu öld, en það var líklega bara vitleysa. Jackson var einmana sál í sífelldri leit að æskunni sem glataðist honum. Þegar við vorum úti á túni í fótbolta var hann að túra næturklúbba í Kansas og sofnaði hvert kvöld á strippklúbbi í faðmi eldri bræðra. Sigur hans er líka merkilegur í menningarsögulegu samhengi, hvernig hann rís upp úr aldadjúpri þrælakistunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×