Fótbolti

Ter Stegen fær samkeppni hjá Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Claudio Bravo veitir Ter Stegen aðhald á næsta tímabili.
Claudio Bravo veitir Ter Stegen aðhald á næsta tímabili. Vísir/getty
Barcelona ætlar að láta nýjan markvörð liðsins, Þjóðverjann Marc-André ter Stegen, hafa fyrir hlutunum.

Börsungar eru að ganga frá kaupum á Claudio Bravo, markverði Real Sociedad, fyrir níu milljónir Evra en með árangurstengdum greiðslum gæti verðið hækkað upp í tólf milljónir Evra. Frá þessu er greint á vefnum Goal.com.

Bæði Víctor Valdés og varamarkvörðurinn José Manuel Pinto eru á útleið hjá Barcelona í sumar en Pinto var aldrei líklegur til að hirða sætið af Valdés.

Ter Stegen fær mun meiri samkeppni því Bravo er öflugur markvörður og er AndoniZubizarreta, fyrrverandi markvörður Barcelona og núverandi íþróttastjóri félagsins, sagður mjög hrifinn af Sílebúanum sem er 31 árs gamall.

Bravo mun standa vaktina í marki Síle á HM í Brasilíu en hann kom til Real Sociedad frá Colo Colo árið 2006 og á nú að baki yfir 200 leiki fyrir Baskana. Samningur hans á að renna út sumarið 2017 en Barcelona ætlar sér að fá hann í sumar.

Þó Sílebúinn sé settur Marc-André ter Stegen til höfuðs er engin spurning um hvor á að vera aðalmarkvörður liðsins.

Ter Stegen hefur verið á meðal bestu markvarða þýsku 1. deildarinnar undanfarin ár en hann á þrjár heilar leiktíðir að baki þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×