Fótbolti

Courtios: Frábært hvernig við komum til baka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thibaut Courtois fagnar með samherjum sínum eftir jafnteflið gegn Barcelona.
Thibaut Courtois fagnar með samherjum sínum eftir jafnteflið gegn Barcelona. Vísir/Getty
Þetta var mjög erfiður leikur gegn liði Barcelona sem vissi nákvæmlega hvað það þyrfti að gera í dag. Enginn - eða a.m.k. mjög fáir - höfðu trú á okkur eftir jafnteflið gegn Malaga í síðustu umferð," sagði Thibaut Courtois, markvörður Atletico Madrid, eftir að liðið hafði tryggt sér Spánarmeistaratitilinn í dag með jafntefli gegn Barcelona á Nývangi.

"Við misstum tvo mikilvæga leikmenn af velli vegna meiðsla eftir 20 mínútur, en þeir sem komu í þeirra stað stóðu sig frábærlega. Það var frábært hvernig við komum til baka eftir að hafa lent undir. Svo þurftum við að standast mikla pressu, en okkur tókst það," sagði Courtois sem hefur verið á láni hjá Atletico Madrid frá Chelsea undanfarin þrjú tímabil.

"Real Madrid og Barcelona hafa úr háum fjárhæðum að spila og geta keypt frábæra leikmenn sem er erfitt fyrir okkur. Við þurftum að vinna aðra leið.

"Við erum með góða leikmenn, en ekki þá allra bestu, og við þurftum að vinna fyrir hvorn annan og standa saman.

"Undanfarin ár hafa verið erfið fyrir stuðningsmenn Atletico, en vonandi getum við unnið Meistaradeildina fyrir þá eftir viku," sagði belgíski markvörðurinn ennfremur," en Atletico Madrid mætir Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu næstkomandi laugardag.


Tengdar fréttir

Atletico Madrid Spánarmeistari í tíunda sinn

Atletico Madrid tryggði sér Spánarmeistaratitilinn með 1-1 jafntefli gegn Barcelona á Nývangi í dag. Þetta var í tíunda sinn sem liðið verður Spánarmeistari, en það gerðist síðast árið 1996.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×