Fótbolti

Halldóri Orra lýst sem "dfhsdkf kommentara sdfasdfa asdf as“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Halldór Orri Björnsson spilar með Falkenberg í Svíþjóð í sumar.
Halldór Orri Björnsson spilar með Falkenberg í Svíþjóð í sumar. Vísir/Valli
Sænska úrvalsdeildin í knattspyrnu hófst um síðustu helgi en þar leika níu Íslendingar með átta félögum.

Einn þeirra er Stjörnumaðurinn Halldór Orri Björnsson sem gekk í raðir nýliða Falkenberg í síðasta mánuði en hann spilaði tólf mínútur í fyrsta leik liðsins sem tapaðist, 3-0, gegn meisturum Malmö.

Sænska blaðið Expressen hitaði rækilega upp fyrir knattspyrnutímabilið og var með umsagnir um alla leikmenn deildarinnar. Gylfi Sigurðsson, íslenskur umboðsmaður sem býr í Svíþjóð, birti mynd á Twitter af umsögn blaðsins um nokkra leikmenn Falkenberg.

Þar er DavidSvensson, fyrirliða Falkenberg, t.am. lýst sem ómetanlegum leikmanni fyrir liðið inn á miðsvæðinu. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Falkenberg aðeins 16 ára gamall og er kominn yfir 500 leiki fyrir félagið.

Fyrir neðan hann í blaðinu er mynd af Halldóri Orri og réttilega bent á að hann sé 27 ára gamall, komi frá Stjörnunni og hafi skorað níu mörk á síðasta tímabili.

Blaðamaðurinn hefur þó eitthvað beðið með að skrifa umsögnina um Halldór og þess í stað aðeins fyllt í kassann með orðinu „Kommentar“ og öðru kroti til áminningar um að þar eigi að koma umsögn.

Hún gleymdist á endanum og er Halldóri því lýst á þessa leið: „Kommentar kommentar kommentar kommentar kommentar kommentar dfhsdkfkommentarasdfasdfa asdf as.“

Það er bara vonandi að Halldór Orri standi undir fögru orðunum og verði alveg „dfhsdkfkommentarasdfasdfa“ á tímabilinu.

Umsögnin skemmtilega um Halldór Orra Björnsson.Mynd/Twitter-Gylfi Sigurðsson
Expressen gefur út risablað um tvær efstu karladeildirnar og úrvalsdeild kvenna fyrir hvert tímabil.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×