Fótbolti

Var Ter Stegen búinn að semja við Barcelona?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Markvörðurinn Marc-Andre ter Stegen ætlar að yfirgefa herbúðir þýska liðsins Gladbach í sumar þrátt fyrir fréttir af félagaskiptabanni Barcelona.

Barcelona verður ekki heimilt að fá nýja leikmenn til félagsins fyrr en sumarið 2015 þar sem að félagið braut reglur FIFA um félagaskipti ungmenna á árunum 2009 til 2013.

Ter Stegen hefur lengi verið orðaður við Barcelona og var talið afar líklegt að hann myndi ganga í raðir félagsins í sumar og taka við markvarðastöðunni af Victor Valdes.

Gladbach hefur þegar fundið eftirmann ter Stegen en félagið hefur samið við Svisslendinginn Yann Sommer.

„Ég hef ekkert heyrt um þetta og ég veit ekki hvað þið viljið frá mér núna,“ sagði ter Stegen í samtali við þýska blaðið Express í dag. „Ég ætla ekkert að tjá mig um þetta. Það er staðreynd að ég fari frá Gladbach í sumar.“

Umboðsmaður kappans gaf til kynna að samningur við Barcelona sé þegar undirritaður. Það er því óvíst hvort að sá samningur verði nú ógildur vegna bannsins.

„Maður gerir ráð fyrir því að ter Stegen verði ekki atvinnulaus. Ég er ekki lögfræðingur en spurningin er hvort að undirritaður samningur haldi sínu gildi eða ekki,“ sagði umboðsmaðurinn.


Tengdar fréttir

Valdes sleit krossband | Myndband

Victor Valdes, markvörður Barcelona, er búinn að spila sinn síðasta leik fyrir félagið en hann meiddist á hné í kvöld í leik Barcelona og Celta Vigo.

Valdes verður frá í sjö mánuði

Markvörður Barcelona, Victor Valdes, er búinn að fara í aðgerð vegna hnémeiðslanna sem hann varð fyrir á dögunum. Nú tekur við sjö mánaða hvíld hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×