Körfubolti

Hlynur besti varnarmaðurinn í sænsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Vísir/Valli
Hlynur Bæringsson, leikmaður Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta, hefur verið valinn besti varnarmaðurinn í sænsku deildinni á þessu tímabili en þetta kemur fram á heimasíðu sænska körfuboltasambandsins.

Þetta er annað árið í röð sem Hlynur hlýtur þessa flottu útnefningu en hann hefur farið fyrir liði Drekanna á miklum umbrotatímum þar sem liðið þurfti að sjá á eftir sterkum leikmönnum.

Hlynur hélt upp á verðlaunin með því að eiga flottan leik þegar Sundsvall Dragons vann 88-81 sigur á Uppsala Basket í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar og minnkaði þar með muninn í 2-1.

Hlynur var með 17 stig, 13 fráköst og 3 stoðsendingar en hann fékk 25 í framlag fyrir frammistöðu sína. Hlynur var með 14,6 stig, 10,9 fráköst, 3,4 stoðsendingar að meðaltali í deildarkeppninni og framlag upp á 22,6 í leik.  

„Það þarf ekki að telja saman tölufræðina til að meta hvað Hlynur gerir fyrir liðið sitt því það er nóg að horfa. Það skiptir ekki máli hvort að það sé fyrsta eða síðasta mínútan í leikjunum. Hann spilar alltaf af mikill ástríðu og er tilbúinn að fórna öllu fyrir sigur," segir í fréttinni um Hlyn og þar stendur líka:

„Hann spilar vörnina af krafti og klókindum og skapar fullt af aukasóknum fyrir liðið sitt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×