Körfubolti

Barkley gerði grín að grátandi þjálfara

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Það er alltaf stutt í brosið hjá Barkley
Það er alltaf stutt í brosið hjá Barkley vísir/afp
Körfuboltagoðsögnin Charles Barkley er þekktur fyrir að halda ekki aftur af sér og láta allt gossa enda álíka orðheppinn og hann var harður inni á vellinum á sínum tíma. Nú varð Saul Phillips fyrir barðinu á Barkley.

Saul Phillips er þjálfari North Dakota State háskólans í bandaríska háskólakörfuboltanum. Fyrst komst Phillips í fréttirnar þegar hann fagnaði sigri skóla síns á Oklahoma á dögunum ákaflega innilega.

Í gær féll North Dakota State úr úrslitakeppninni þegar liðið tapaði fyrir San Diego State og aftur komst Phillips í fréttirnar en núna vegna þess að hann grét á blaðamannafundi.

Barkley vildi ekki gera lítið úr því að Phillips grét í sjónvarpi og sagðist skilja manninn vel.

„Þjálfari, ég hef verið í þessari stöðu þegar þú tapar. Það er erfitt. Ég hef notið blessunar í lífinu. Körfubolti hefur gefið mér allt í lífinu,“ sagði Barkley.

„Ég geri ekki grín að þessu vegna þess að það er ömurlegt að tapa. Þið áttuð frábært ár. Ég vil ekki gera grín að þér,“ sagði Barkley alvörugefinn en svo gat hann ekki meir og hans sanna eðli braust fram.

„Ég held ekki að hann hafi grátið af því að þeir töpuðu, hann grét af því að hann þarf að fara aftur til North Dakota,“ sagði Barkley eins og sjá má hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×