Fótbolti

Eistar koma í Dalinn í júní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm
Knattspyrnusambönd Íslands og Eistlands hafa komist að samkomulagi um að karlalandslið þjóðanna leiki vináttulandsleik á Laugardalsvelli, miðvikudaginn 4. júní. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Samkomulagið er í raun um tvo leiki því hluti af því er að þjóðirnar mætist aftur í Tallinn, 31. mars 2015.

Leikurinn á Laugardalsvelli verður fjórði landsleikur karlalandsliða þjóðanna og allt hafa þetta verið vináttulandsleikir.

Þjóðirnar mættust fyrst á Akureyrarvelli árið 1994 og skoraði Þorvaldur Örlygsson þá þrennu í 4–0 sigri Íslands.  

Tveimur árum síðar mættust þjóðirnar aftur , þá ytra, og skoraði Bjarki Gunnlaugsson þrennu á fyrsta hálftíma leiksins í 3–0 sigri.  Í þeim leik kom Eiður Smári Guðjohnsen inná sem varamaður fyrir faðir sinn, Arnór Guðjohnsen.  

Þarna mættust einnig bræður en Ólafur Þórðarson lék með íslenska liðinu en bróðir hans, Teitur Þórðarson, var landsliðsþjálfari Eistlands.  

Síðast mættust þjóðirnar svo í Tallinn árið 2002 og höfðu heimamenn þá betur, 2–0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×