Fótbolti

Casillas gæti fengið að spila nokkra deildarleiki

Iker Casillas ver mark Real í bikarnum og í Meistaradeildinni.
Iker Casillas ver mark Real í bikarnum og í Meistaradeildinni. Vísir/Getty
Iker Casillas, markvörður Real Madrid og spænska landsliðsins í fótbolta, gæti fengið að spila nokkra leiki í deildinni áður en tímabilið klárast.

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, hefur fylgt þeirri vinnureglu allt tímabilið að Diego Lopez verji mark liðsins í spænsku 1. deildinni en Casillas spilar alla leiki í bikar og í Meistaradeildinni.

Það hefur virkað hingað til en liðið er á ótrúlegu skriði og ekki búið að tapa í 25 leikjum í röð í öllum keppnum. Síðast tapaði það fyrir erkifjendunum í Barcelona 26. október á síðasta ári.

Einn galli er þó á kerfinu því ef Real Madrid kemst alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar verður mánuður frá því Casillas spilaði síðast leik í úrslitum spænska konungsbikarsins gegn Barcelona. Það er ansi tæpt að tefla fram markverði sem ekki hefur spilað í einn mánuð komist liðið í stærsta leik tímabilsins.

Carlo Ancelotti veit af þessu og er með lausn í huga. „Ég útiloka það ekki að láta Iker spila einn eða tvo deildarleiki. Við ræðum það ef við komumst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar,“ sagði Ítalinn við blaðamenn í gær.

Diego Lopez á flugi í deildarleik með Real Madrid.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×