Körfubolti

Helena klikkaði á öllum þrettán skotunum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Daníel
Helena Sverrisdóttir og félagar hennar í ungverska liðinu Aluinvent Miskolc eru svo gott sem úr leik í EuroCup kvenna eftir 32 stiga tap í fyrri leiknum á móti tyrkneska liðinu Istanbul Universitesi, 55-87, í sextán liða úrslitum keppninnar.

Helena átti skelfilegan dag en hún klikkaði á öllum þrettán skotum sínum í leiknum, átti tveggja stiga skotum og fimm skotum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Tyrkneska liðið vann fyrsta leikhlutann 23-10 og var með 31 stigs forskot í hálfleik, 51-20. Istanbul hefur nú 32 stiga forskot fyrir seinni leikinn sem fer fram í Tyrklandi.

„Við vissum fyrir að þetta yrði erfiður leikur og við yrðum því að byrja vel. Við virkuðum hinsvegar hræddar í fyrri hálfleiknum og þær voru betri en við á öllum sviðum. Við reyndum það sem við gátum en hittum ekki neitt," sagði Helena Sverrisdóttir í viðtalið við heimasíðu Fibaeurope.

Helena var með 2 stig, 6 fráköst, 2 stolna bolta og 1 stoðsendingu á þeim 29 mínútum sem hún spilaði í þessum leik. Lettinn Liene Jansone var langatkvæðamest í liðinu en hún skoraði 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×