Fótbolti

Kolbeinn fær aftur tækifæri til að jafna met Péturs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson fagnar hér marki sínu á móti Kýpur á föstudagskvöldið.
Kolbeinn Sigþórsson fagnar hér marki sínu á móti Kýpur á föstudagskvöldið. Mynd/Vilhelm
Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska karlandsliðs í fótbolta, getur gert sögulegan dag enn sögulegri á morgun þegar Íslendingar mæta Norðmönnum á Ullevaal-leikvanginum. Kolbeinn hefur nú skorað í fjórum landsleikjum í röð og er farinn að ógna meti sem var sett aðeins 25 dögum eftir að Kolbeinn kom í heiminn snemma árs 1990. Metið á Pétur Pétursson sem skoraði í fimm landsleikjum sínum í röð á árunum 1987 til 1990.

Kolbeinn hefur verið í sömu aðstöðu áður en hann var búinn að skora í fjórum landsleikjum í röð síðasta haust þegar hann meiddist á öxl og var frá í marga mánuði. Kolbeinn skoraði ekki í fyrstu þremur landsleikjum sínum eftir að hann sneri til baka en hefur heldur betur bætt úr því í haust.

Met Péturs Péturssonar var sett á tveggja og hálfs árs tímabili en ekki á þremur mánuðum eins og mögulega hjá Kolbeini takist honum að skora á morgun.

Pétur skoraði í 2-1 sigri á Norðmönnum í september 1987 en ósætti við landsliðsþjálfarann Sigfried Held urðu til þess að hann spilaði ekki oftar fyrir Þjóðverjann. Pétur gaf ekki kost á sér í tveimur síðustu leikjum ársins 1987 vegna brúðkaupsferðar og Held var ósáttur við það og setti hann í bann.

Held sat í þjálfarastólnum í tvö ár og næsti landsleikur Péturs var því ekki fyrr en Guðni Kjartansson tók tímabundið við liðinu fyrir leik á móti Tyrkjum í september 1989. Guðni setti Pétur beint inn í byrjunarliðið og Pétur svaraði kallinu með því að skora tvö mörk í frábærum 2-1 sigri.

Pétur var áfram sjóðheitur í fyrstu leikjum liðsins undir stjórn Svíans Bo Johansson og skoraði í þremur fyrstu leikjum ársins 1990. Pétur var því búinn að skora í fimm landsleikjum í röð á 30 mánuðum en tókst ekki að skora í leik á móti Albaníu í lok maí 1990. Pétur lék aðeins einn landsleik til viðbótar og skoraði ekki fleiri mörk fyrir landsliðið.

Kolbeinn hafði heppnina með sér í fyrsta leiknum af þessum fjórum þegar Birkir Bjarnason skaut í hann og í markið en síðan hefur hann skorað í leikjum á móti Sviss, Albaníu og Kýpur. Nú er að sjá hvort hann kemst í klúbbinn með Pétri annað kvöld.

Mörk í flestum landsleikjum í röðFimm leikir í röð

Pétur Pétursson 1987-1990

Ísland-Noregur 2-1

Laugardalsvöllur 9. september 1987

Skoraði á 21. mínútu

Ísland-Tyrkland 2-1

Laugardalsvöllur 20. september 1989

Skoraði tvö mörk, á 52. og 69. mínútu

Lúxemborg-Ísland 1-2

Esch 28. mars 1990

Skoraði á 16. mínútu

Bermúda-Ísland 0-4

Hamilton 3. apríl 1990

Skoraði tvö mörk, á 4. og 88. mínútu (víti)

Bandaríkin-Ísland 4-1

St. Louis 8. apríl 1990

Skoraði á 85. mínútu (víti)



Fjórir leikir í röð

Kolbeinn Sigþórsson 2011-2012

Ísland-Kýpur 1-0

Laugardalsvöllur 6. september 2011

Skoraði á 4. mínútu

Frakkland-Ísland 3-2

Valenciennes, 27. maí 2012

Skoraði á 34. mínútu

Svíþjóð-Ísland 3-2

Gautaborg, 30. maí 2012

Skoraði á 26. mínútu

Ísland-Færeyjar 2-0

Laugardalsvöllur 15. ágúst 2012

Skoraði tvö mörk, á 30. og 90. mínútu



Fjórir leikir í röð

Kolbeinn Sigþórsson 2013

Ísland-Færeyjar 2-0

Laugardalsvöllur 14. ágúst 2012

Skoraði á 65. mínútu

Sviss - Ísland 4-4

Stade de Suisse, Bern 6. september

Skoraði á 56. mínútu

Ísland-Albanía 2-1

Laugardalsvöllur, 10. september

Skoraði á 47. mínútu

Ísland-Kýpur 2-0

Laugardalsvöllur, 11. október 2013

Skoraði á 60. mínútu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×