Nýtt forsetasóló Ólafur Þ. Stephensen skrifar 11. júní 2013 00:01 Ekki kom á óvart eitt augnablik að forseti Íslands nýtti tækifærið og stigi inn í tómarúmið sem óskýr stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum skapar. Forsetinn tók að sér að útskýra fyrir okkur í þingsetningarræðu að „þrátt fyrir vinsamlegar yfirlýsingar“ hefði Evrópusambandið í raun ekki áhuga á að semja við Ísland um aðild. Ástæðurnar væru ótti við að Íslendingar felldu aðildarsamninginn, að litlar líkur væru á að hægt væri að koma til móts við Ísland í sjávarútvegsmálum, og að ýmis aðildarríki teldu mikilvægara að sigrast á innri erfiðleikum sambandsins en að mæta kröfum Íslendinga. Þetta hefur forsetinn eftir ónafngreindum „evrópskum áhrifamönnum“. Það vantar reyndar í söguna hvort þetta séu menn sem taka ákvarðanir um aðildarviðræðurnar við Ísland, ekki sízt af því að síðan hefur verið ítrekað að stefna sambandsins um að ljúka viðræðum við Ísland sé óbreytt. Það vantar líka frásögn af því hvaða boðskap forsetinn flutti hulduviðmælendum sínum. Lagði hann áherzlu á neikvæð viðhorf gagnvart Evrópusambandinu á Íslandi eða dró hann til dæmis fram niðurstöður skoðanakannana, sem sýna að meirihluti landsmanna vill ljúka aðildarviðræðunum? Alltént kom það heldur ekki á óvart að embættismenn ESB hefðu samband við utanríkisráðuneytið til að fá að vita hver færi í rauninni með utanríkismál þjóðarinnar. Það var eðlileg spurning, í framhaldi af því að forsetinn steig svona myndarlega inn á verksvið utanríkisráðherrans. Hins vegar er ástæða til að vera hissa á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við þessu nýjasta sólói forsetans. Utanríkisráðherrann ítrekaði að hann færi með utanríkismálin, en fannst í góðu lagi að forsetinn tjáði sig um þau með þessum afgerandi hætti. Forsætisráðherrann setti svo fram nýja túlkun á stjórnskipan landsins í útvarpsviðtali. Hann sagði að það væri nú ekki á verksviði forsetans að tjá sig um pólitík. Þetta sem forsetinn var að tala um hefði hins vegar hvorki verið „hefðbundið utanríkispólitískt eða innanríkispólitískt mál, heldur fullveldismál. Og það heyrir í raun undir forsetann, eins og þingið“. Það kemur alls ekki á óvart að sérfræðingar í stjórnskipun landsins klóri sér í hausnum yfir þessari yfirlýsingu og því síður að venjulegt fólk skilji engan veginn hvað hún þýðir. Sigmundi Davíð virðist talsvert í mun að efna ekki til átaka við gaurinn sem lét hann hafa stjórnarmyndunarumboðið og talar fallega um Framsókn í útlöndum. Líklega vill hann ekki lenda í sama stríði við forsetann og síðasta ríkisstjórn stóð lengi í. Þó kemur á óvart að Sigmundur skuli ekki muna betur en raun ber vitni hversu kært var með forsetanum og vinstri stjórninni í upphafi. Ólafur Ragnar var til að byrja með í einkar guðföðurlegum stellingum gagnvart þeirri stjórn, ekki síður en þeirri sem nú situr. Svo fór það eins og það fór. Sömuleiðis kemur á óvart ef forystumenn núverandi stjórnarflokka eru búnir að gleyma sumrinu 2004, þegar forsetinn fór gegn ríkisstjórn sömu flokka og meirihluta Alþingis og setti stjórnskipun landsins á hvolf. Því að ef ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ættu að vita eitthvað fyrir víst, er það að þeir vita aldrei hvar þeir hafa Ólaf Ragnar Grímsson. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Ekki kom á óvart eitt augnablik að forseti Íslands nýtti tækifærið og stigi inn í tómarúmið sem óskýr stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum skapar. Forsetinn tók að sér að útskýra fyrir okkur í þingsetningarræðu að „þrátt fyrir vinsamlegar yfirlýsingar“ hefði Evrópusambandið í raun ekki áhuga á að semja við Ísland um aðild. Ástæðurnar væru ótti við að Íslendingar felldu aðildarsamninginn, að litlar líkur væru á að hægt væri að koma til móts við Ísland í sjávarútvegsmálum, og að ýmis aðildarríki teldu mikilvægara að sigrast á innri erfiðleikum sambandsins en að mæta kröfum Íslendinga. Þetta hefur forsetinn eftir ónafngreindum „evrópskum áhrifamönnum“. Það vantar reyndar í söguna hvort þetta séu menn sem taka ákvarðanir um aðildarviðræðurnar við Ísland, ekki sízt af því að síðan hefur verið ítrekað að stefna sambandsins um að ljúka viðræðum við Ísland sé óbreytt. Það vantar líka frásögn af því hvaða boðskap forsetinn flutti hulduviðmælendum sínum. Lagði hann áherzlu á neikvæð viðhorf gagnvart Evrópusambandinu á Íslandi eða dró hann til dæmis fram niðurstöður skoðanakannana, sem sýna að meirihluti landsmanna vill ljúka aðildarviðræðunum? Alltént kom það heldur ekki á óvart að embættismenn ESB hefðu samband við utanríkisráðuneytið til að fá að vita hver færi í rauninni með utanríkismál þjóðarinnar. Það var eðlileg spurning, í framhaldi af því að forsetinn steig svona myndarlega inn á verksvið utanríkisráðherrans. Hins vegar er ástæða til að vera hissa á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við þessu nýjasta sólói forsetans. Utanríkisráðherrann ítrekaði að hann færi með utanríkismálin, en fannst í góðu lagi að forsetinn tjáði sig um þau með þessum afgerandi hætti. Forsætisráðherrann setti svo fram nýja túlkun á stjórnskipan landsins í útvarpsviðtali. Hann sagði að það væri nú ekki á verksviði forsetans að tjá sig um pólitík. Þetta sem forsetinn var að tala um hefði hins vegar hvorki verið „hefðbundið utanríkispólitískt eða innanríkispólitískt mál, heldur fullveldismál. Og það heyrir í raun undir forsetann, eins og þingið“. Það kemur alls ekki á óvart að sérfræðingar í stjórnskipun landsins klóri sér í hausnum yfir þessari yfirlýsingu og því síður að venjulegt fólk skilji engan veginn hvað hún þýðir. Sigmundi Davíð virðist talsvert í mun að efna ekki til átaka við gaurinn sem lét hann hafa stjórnarmyndunarumboðið og talar fallega um Framsókn í útlöndum. Líklega vill hann ekki lenda í sama stríði við forsetann og síðasta ríkisstjórn stóð lengi í. Þó kemur á óvart að Sigmundur skuli ekki muna betur en raun ber vitni hversu kært var með forsetanum og vinstri stjórninni í upphafi. Ólafur Ragnar var til að byrja með í einkar guðföðurlegum stellingum gagnvart þeirri stjórn, ekki síður en þeirri sem nú situr. Svo fór það eins og það fór. Sömuleiðis kemur á óvart ef forystumenn núverandi stjórnarflokka eru búnir að gleyma sumrinu 2004, þegar forsetinn fór gegn ríkisstjórn sömu flokka og meirihluta Alþingis og setti stjórnskipun landsins á hvolf. Því að ef ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ættu að vita eitthvað fyrir víst, er það að þeir vita aldrei hvar þeir hafa Ólaf Ragnar Grímsson.