Hleranafúsk Ólafur Þ. Stephensen skrifar 16. apríl 2013 07:00 Nýjar upplýsingar um framkvæmd símahlerana embættis sérstaks saksóknara hjá grunuðum mönnum í Al Thani-málinu renna fleiri stoðum undir þá skoðun margra að hvorki framkvæmd hlerana lögreglunnar né eftirlit með þeim sé í lagi. Í febrúarlok svaraði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ýtarlegri fyrirspurn Bjarna Benediktssonar á Alþingi um símahleranir. Þar var meðal annars spurt hve oft samskipti grunaðs manns við lögmann hefðu verið hleruð, en slík samtöl njóta sérstaks trúnaðar. Innanríkisráðuneytið leitaði svara hjá Ríkissaksóknara, sem á að hafa eftirlit með hlerununum. Embættið taldi ekki hægt að svara fyrirspurninni; upplýsingarnar væru ekki skráðar. Saksóknari vísaði meðal annars til þess að samkvæmt lögum skyldi þegar í stað eyða gögnum sem hefðu að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn. Ekki gat Alþingi ráðið annað af svarinu en að það væri verklagið hjá lögreglunni. Annað kemur þó á daginn. Hinn 11. marz sendi Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar í Al Thani-málinu, Ríkissaksóknara bréf þar sem hann vakti athygli hans á því að við yfirferð símtala Hreiðars sem sérstakur saksóknari hleraði, hefði komið í ljós að símtöl hans og verjandans hefðu verið „hleruð og vistuð hjá embættinu“. Fréttablaðið fékk þær upplýsingar hjá Ríkissaksóknara að þessi kæra væri enn til rannsóknar hjá því embætti. Sérstakur saksóknari hefur ekkert viljað tjá sig um málið. Það er hins vegar orðið brýnt að fá svör við spurningu sem lögmaður setti fram í samtali við Fréttablaðið í lok febrúar: „Ef ríkissaksóknari er ekki að fylgjast með því að þessum trúnaðarsamtölum sé eytt, hver er þá að fylgjast með því? Enginn?“ Í tengslum við Al Thani-málið kom líka fram að Sérstakur saksóknari hefði vikum saman hlerað síma manns norður í landi, sem tengdist málinu ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er afar freklegt inngrip í einkalíf viðkomandi. Í yfirlýsingu frá sérstökum saksóknara kom fram að sími viðkomandi hefði verið hleraður vegna mistaka hjá símafyrirtæki, en þau sjá um framkvæmd hlerana fyrir lögregluna. Símtölin væru ekki á meðal málsgagna og hefðu engin áhrif haft á málið. Sérstakur saksóknari getur hins vegar ekki firrt sig ábyrgð á klúðrinu. Hafa starfsmenn hans ekkert eftirlit með hlerunum sem símafyrirtæki framkvæma til að ganga úr skugga um að rétt fólk sé hlerað? Þetta hlýtur að styrkja þá beiðni símafyrirtækjanna að lögreglan fái búnað til að hlera síma sjálf, milliliðalaust. Allt of margt hefur komið fram um of frjálslega umgengni um heimildir laga til símahlerana, slælegt eftirlit með þeim og fúsk í framkvæmdinni til að hægt sé að láta það kyrrt liggja. Það er sjálfsagt að lögreglan hafi þessar heimildir, en bæði eftirlitið og framkvæmdin verða að vera í lagi. Það sem löggæzlan mætti gjarnan hafa í huga er að eigi hún að fá auknar rannsóknarheimildir til að fylgjast með skipulagðri glæpastarfsemi – sem full þörf er á – þarf bæði almenningur og löggjafinn að hafa trú á að vel sé með þær farið og eftirlitið tryggt. Þá skiptir miklu máli hvernig farið er með þau úrræði sem lögreglan hefur nú þegar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Nýjar upplýsingar um framkvæmd símahlerana embættis sérstaks saksóknara hjá grunuðum mönnum í Al Thani-málinu renna fleiri stoðum undir þá skoðun margra að hvorki framkvæmd hlerana lögreglunnar né eftirlit með þeim sé í lagi. Í febrúarlok svaraði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ýtarlegri fyrirspurn Bjarna Benediktssonar á Alþingi um símahleranir. Þar var meðal annars spurt hve oft samskipti grunaðs manns við lögmann hefðu verið hleruð, en slík samtöl njóta sérstaks trúnaðar. Innanríkisráðuneytið leitaði svara hjá Ríkissaksóknara, sem á að hafa eftirlit með hlerununum. Embættið taldi ekki hægt að svara fyrirspurninni; upplýsingarnar væru ekki skráðar. Saksóknari vísaði meðal annars til þess að samkvæmt lögum skyldi þegar í stað eyða gögnum sem hefðu að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn. Ekki gat Alþingi ráðið annað af svarinu en að það væri verklagið hjá lögreglunni. Annað kemur þó á daginn. Hinn 11. marz sendi Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar í Al Thani-málinu, Ríkissaksóknara bréf þar sem hann vakti athygli hans á því að við yfirferð símtala Hreiðars sem sérstakur saksóknari hleraði, hefði komið í ljós að símtöl hans og verjandans hefðu verið „hleruð og vistuð hjá embættinu“. Fréttablaðið fékk þær upplýsingar hjá Ríkissaksóknara að þessi kæra væri enn til rannsóknar hjá því embætti. Sérstakur saksóknari hefur ekkert viljað tjá sig um málið. Það er hins vegar orðið brýnt að fá svör við spurningu sem lögmaður setti fram í samtali við Fréttablaðið í lok febrúar: „Ef ríkissaksóknari er ekki að fylgjast með því að þessum trúnaðarsamtölum sé eytt, hver er þá að fylgjast með því? Enginn?“ Í tengslum við Al Thani-málið kom líka fram að Sérstakur saksóknari hefði vikum saman hlerað síma manns norður í landi, sem tengdist málinu ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er afar freklegt inngrip í einkalíf viðkomandi. Í yfirlýsingu frá sérstökum saksóknara kom fram að sími viðkomandi hefði verið hleraður vegna mistaka hjá símafyrirtæki, en þau sjá um framkvæmd hlerana fyrir lögregluna. Símtölin væru ekki á meðal málsgagna og hefðu engin áhrif haft á málið. Sérstakur saksóknari getur hins vegar ekki firrt sig ábyrgð á klúðrinu. Hafa starfsmenn hans ekkert eftirlit með hlerunum sem símafyrirtæki framkvæma til að ganga úr skugga um að rétt fólk sé hlerað? Þetta hlýtur að styrkja þá beiðni símafyrirtækjanna að lögreglan fái búnað til að hlera síma sjálf, milliliðalaust. Allt of margt hefur komið fram um of frjálslega umgengni um heimildir laga til símahlerana, slælegt eftirlit með þeim og fúsk í framkvæmdinni til að hægt sé að láta það kyrrt liggja. Það er sjálfsagt að lögreglan hafi þessar heimildir, en bæði eftirlitið og framkvæmdin verða að vera í lagi. Það sem löggæzlan mætti gjarnan hafa í huga er að eigi hún að fá auknar rannsóknarheimildir til að fylgjast með skipulagðri glæpastarfsemi – sem full þörf er á – þarf bæði almenningur og löggjafinn að hafa trú á að vel sé með þær farið og eftirlitið tryggt. Þá skiptir miklu máli hvernig farið er með þau úrræði sem lögreglan hefur nú þegar.