Fótbolti

Ekki teflt á tvær hættur með Messi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Óvíst er hvort að Lionel Messi verði orðinn leikfær snemma á nýju ári eins og forráðamenn Barcelona vonast til.

Barcelona hefur tapað síðustu tveimur leikjum sínum en Messi meiddist aftan í læri þegar að liðið vann Real Betis í síðasta mánuði, 4-1.

Útilokað er að Messi spili meira á árinu en Gerardo Martino, stjóri Barcelona, segir óvíst hvenær hann verði klár á nýjan leik.

„Endurhæfingin gengur samkvæmt áætlun og við vonum að hann verði tilbúinn í byrjun janúar. Það kemur svo í ljós eftir því sem nær dregur hvort hann þurfi meiri tíma,“ sagði Martino.

„Við getum ekki verið vissir um neitt. Við viljum frekar að hann verði algjörlega laus við meiðslin áður en hann byrjar að spila á ný.“

Martino óttast ekki að lið Börsunga muni hrynja í fjarveru Messi. „Við erum bjartsýnir enda ekki að ástæðulausu að við erum á toppi deildarinnar og komnir í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×