Íslenski boltinn

Ólafur Örn og HK náðu ekki saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason.
Ólafur Örn Bjarnason. Mynd/Daníel
Ólafur Örn Bjarnason verður ekki þjálfari HK í 1. deildinni næsta sumar eins og stefndi í en viðræður voru í gangi milli hans og félagsins.

HK vann sér sæti í 1. deildinni í sumar en hafði spilað í 2. deildinni undanfarin tvö sumur. Kópavogsliðið var í efstu deild 2007-2008.

Ólafur Örn Bjarnason er 38 ára gamall og lagði skóna á hilluna eftir tímabilið þar sem hann varð bikarmeistari með Fram. Ólafur Örn var áður spilandi þjálfari Grindavíkur.

Þórir Bergsson formaður meistaraflokksráðs HK hafði áður staðfest við HK-vefinn að viðræður við Ólaf væru í gangi en félagið leitar nú eftirmanns Gunnlaugs Jónssonar.

„Viðræður á milli aðila hafa gengið vel og er mikill samhljómur í áherslum okkar á milli varðandi áframhaldandi uppbyggingu meistaraflokks HK til næstu ára," sagði Þórir Bergsson í samtali við HK-vefinn í síðustu viku.

Viðræðunum hefur nú verið slitið eins og kemur fram í tilkynningu á heimasíðu HK.

Meistaraflokksráð karla hjá HK hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Meistaraflokksráð HK og Ólafur Örn Bjarnason hafa átt í viðræðum síðustu daga um að Ólafur Örn tæki að sér þjálfun meistaraflokks HK. Viðræður drógust á langinn þar sem Ólafur Örn er staddur erlendis. Niðurstaða þessara viðræðna er sú að Ólafur Örn mun ekki taka að sér þjálfun liðsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×