Fótbolti

Eiður Smári byrjar, Alfreð á bekknum - óbreytt byrjunarlið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Pjetur
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu hefur valið byrjunarliðið sitt fyrir leikinn á móti Kýpur sem hefst á Laugardalsvellinum klukkan 18.45. Lagerbäck teflir fram sama byrjunarliði og í sigurleiknum á móti Albaníu á dögunum.

Heimir Hallgrímsson, aðstoðarmaður Lagerbäck, fór yfir byrjunarliðið á fundi með Tólfunni, stuðningsmannaklúbbi íslenska landsliðsins, en þeir fengu fyrstir allra, utan landsliðhópsins, að vita hvaða ellefu leikmenn hann og Lars ætla að treysta á í þessum gríðarlega mikilvæga landsleik.

Ísland vann 2-1 sigur á Albaníu á Laugardalsvellinum í síðasta leik og sænski þjálfarinn var mjög ánægður með leik liðsins og gerir engar breytingar. Alfreð Finnbogason, markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar, þarf því að sætta sig við það að byrja á bekknum.

Íslenska landsliðið er í öðru sæti riðilsins og kemur sér í flotta stöðu fyrir lokaumferðina með því að vinna lið Kýpur í kvöld. Íslensku strákarnir tóku fjögur stig í síðustu leikjatörn og geta í kvöld unnið tvo leiki í röð í fyrsta sinn í þessari undankeppni.

Byrjunarlið Íslands á móti Kýpur í kvöld:

Markvörður:

Hannes Þór Halldórsson

Hægri bakvörður:

Birkir Már Sævarsson  

Miðverðir:

Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson

Vinstri bakvörður:

Ari Freyr Skúlason  

Hægri kantmaður

Jóhann Berg Guðmundsson

Miðjumenn:

Aron Einar Gunnarsson (fyrirliði) og Gylfi Þór Sigurðsson

Vinstri kantmaður:

Birkir Bjarnason

Framherjar:

Eiður Smári Guðjohnsen

Kolbeinn Sigþórsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×