Fótbolti

Michu kallaður inn í spænska landsliðið í fyrsta sinn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Michu í leik með Swansea gegn Arsenal á dögunum.
Michu í leik með Swansea gegn Arsenal á dögunum. MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Spænski framherji enska úrvalsdeildarliðsins Swansea, Michu, hefur verið kallaður inn í spænska landsliðið vegna meiðsla David Villa sem varð að draga sig úr hópnum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Michu er valinn í spænska landsliðið en hann sló í gegn með Swansea á síðustu leiktíð. Michu hefur skorað 27 mörk síðan hann gekk til liðs við velska félagið frá Rayo Vallecano fyrir rúmu ári síðan en hingað til að hafa leikmenn á borð við Fernando Llorente og Roberto Soldado verið valdir frekar.

Michu er 27 ára gamall og gæti leikið sinn fyrsta landsleik þegar Spánn mætir Hvíta-Rússlandi og Georgíu í síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppni Heimsmeistarakeppninnar 2014.

Spánn er í efsta sæti I-riðils með jafn mörg stig og Frakkland en með betri markatölu auk þess að eiga tvo leiki eftir en Frakkland á aðeins einn. Spánn tryggir sér farseðilinn til Brasilíu náði liðið í fjögur stig í leikjunum tveimur, vinni Frakkland sinn leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×