Golf

Guðmundur Ágúst annar í sterku háskólamóti

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Guðmundur Ágúst Kristjánsson náði sínum besta árangri í háskólagolfinu í gær.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson náði sínum besta árangri í háskólagolfinu í gær. Mynd/East Tennessee State
Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur náði góðum árangri og varð annar í Wolfpack Intercollegiate háskólamótinu sem lauk í gær í Norður-Karólínu. Guðmundur lék hringina þrjá í mótinu á 205 höggum eða 11 höggum undir pari. Hann varð tveimur höggum á eftir Carter Jenkins sem sigraði.

Guðmundur lék hringina þrjá á 68, 66 og 71 höggi. Alls fékk Guðmundur 17 fugla á hringjunum þremur og er þetta hans besti árangur til þessa í háskólagolfinu en hann er á öðru ári sínu í bandaríska háskólagolfinu.

Íslenski kylfingurinn leiddi sína menn í East Tennessee til sigurs í mótinu en lið skólans lék á samtals 21 höggi undir pari og varð 11 höggum á undan UNCG háskólanum sem hafnaði í öðru sæti.

Guðmundur Ágúst er einn af efnilegstu kylfingum landsins og varð Íslandsmeistari í holukeppni síðastliðið sumar. Hann verður næst í eldlínunni um næstu helgi þegar leikið verður í Tennessee.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×