Íslenski boltinn

Þjálfarateymi Freys tilbúið - Elísabet er nýr njósnari liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir. Mynd/Daníel
Freyr Alexandersson, nýráðinn þjálfari kvennalandsliðsins, er búinn að setja saman teymið sitt sem mun vera með honum í verkefnum kvennalandsliðsins. Heimir Hallgrímsson mun verða aðstoðarþjálfari hans í fyrsta leik og sú eina sem heldur "sæti" sínu frá þjálfarateymi Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar er liðstjórinn Margrét Ákadóttir.

Heimir Hallgrímsson verður þó bara aðstoðarþjálfari Freys í leiknum á móti Sviss en í kjölfarið á þeim leik verður ákveðið hvaða aðstoðarþjálfari verður til frambúðar.

Ólafur Pétursson verður markmannsþjálfari liðsins en nýi sjúkraþjálfarinn er Jófríður Halldórsdóttir. "Gott að hafa sigurvegara í hópnum," sagði Freyr um Jófríði sem starfið með liði Breiðabliks frá 2009 til 2010 og hefur verið með karlaliðið KR síðustu árin.

Margrét Ákadóttir verður áfram liðsstjóri en Freyr fær með henni Laufeyju Ólafsdóttur. "Ég þekki hana úr Fellahverfinu í gamla daga þar sem við vorum að rífa kjaft," sagði Freyr í léttum tón á fundinum.

Hjörtur Brynjólfsson verður læknir liðsins og Elisabet Gunnarsdóttir fær hlutverk njósnara. "Hún verður okkur innan handar þegar við þurfum að senda fagmenn á leiki erlendis. Hún fer fyrir okkur á leik Sviss og Serbíu í undankeppninni á laugardaginn Ef ég þekki Betu rétt þá fáum við ítarlega greiningu á þeim leik," sagði Freyr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×