Fótbolti

Bale er byrjaður að læra spænsku - myndir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gareth Bale með fjölskykldu sinni.
Gareth Bale með fjölskykldu sinni. Mynd/AFP
Gareth Bale var í dag kynntur til sögunnar sem leikmaður Real Madrid. Hann er dýrasti leikmaður knattspyrnusögunnar en kaupverðið er 100 milljónir evra eða tæplega 16 milljarðar íslenskra króna.

„Ég vil spila í Meistaradeildinni og við viljum vinna tíunda Evrópumeistaratitil Real Madrid,“ sagði Gareth Bale á blaðamannafundi í Madríd í dag. Myndasyrpu frá komu Bale til spænska stórveldisins má sjá í glugganum hér að ofan.

Bale sagði að félagaskiptin væru draumi líkust og hann setji sjálfur pressu á sig að standa undir væntingum.

„Ég hef alltaf fylgst með spænska fótboltanum og deildin er stórkostleg. Mér hefur alltaf líkað vel við Real Madrid og fylgst með gengi liðsins.“

Bale sagði Danyel Levy, stjórnarformann Tottenham, erfiðan viðureignar í viðskiptum. Hann þakkar þó fyrir að félagaskiptin hafi gengið í gegn. Hjá Real hittir hann fyrir Cristiano Ronaldo en báðir eru miklir aukaspyrnusérfræðingar.

„Cristiano ræður ferðinni hérna enda besti leikmaður í heimi. Ég vil læra af honum,“ sagði Bale. Hann viðurkenndi að vera stressaður en aðallega ánægður og spenntur.

„Ég er byrjaður að læra spænsku. Það skiptir mig miklu máli og ég er spenntur fyrir því að bæta við mig tungumáli.“

Bale sagðist hafa haldið góðu sambandi við Luka Modric síðan Króatinn hélt til Real Madrid frá Tottenham síðastliðið sumar. Hann hafi mælt með því að Bale gengi í raðir spænska félagsins.

Aðspurður um áhuga frá Manchester United sagði Bale:

„Ég ætlaði alltaf til Real Madrid.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×