Körfubolti

Finnar réðu ekki við Ítala

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Sigurganga Finna á Evrópumótinu í körfubolta í Slóveníu endaði í kvöld þegar liðið tapaði stórt á móti Ítölum, 44-62. Ítalir hafa byrjað mótið með þremur flottum sigrum á Rússum (+7), Tyrkjum (+15) og Finnum (+18) en Finnar höfðu unnið Tyrki og Svía. Króatar unnu Pólverja á sama tíma og hafa Króatar nú unnið tvo leiki í röð.

Luigi Datome skoraði tíu stig fyrir Ítala en þeir Alessandro Gentile og Andrea Cinciarini voru báðir með níu stig. Ítalir lögðu grunninn að sigrinum í vörninni en Finnar voru aðeins með 27 prósent skotnýtingu í leiknum. Teemu Rannikko og Sasu Salin skoruðu mest fyrir finnska liðið eða átta stig hvor.

Króatar eru að koma til eftir slæmt tap á móti Spáni í fyrsta leik en liðið vann fjögurra stiga sigur á Pólverjum í dag, 74-70. Pólverjar hafa tapað öllum þremur leikjum sínum en þetta var annar sigur Króata í röð.

Bojan Bogdanovic skoraði 23 stig fyrir króatíska liðið í dag en Krunoslav Simon skoraði 14 stig og gaf 6 stoðsendingar. Michal Ignerski var atkvæðamestur hjá Pólverjum með 22 stig og 12 fráköst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×