Íslenski boltinn

Ætlum okkur alla leið í ár

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Leikurinn leggst bara vel okkur, þetta er spennandi tækifæri fyrir stelpurnar og sýnir um leið hversu mikill uppgangur er í kvennaknattspyrnunni fyrir norðan,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Þór/KA mætir Breiðablik í úrslitum Borgunarbikarsins í knattspyrnu kvenna. Leikurinn fer fram klukkan fjögur á Laugardalsvellinum.

„Við komumst í undanúrslit í þessari keppni í fyrra og duttum úr leik á mjög svekkjandi hátt eftir framlengdan leik gegn Stjörnunni. Núna er liðið komið enn lengra og við ætlum okkur alla leið í ár.“

Jóhann vill ekki breyta of mikið út af vananum fyrir þennan leik en viðurkennir þó að vikan hafi verið örlítið öðruvísi en aðrar.

„Við vildum kannski vera meira saman sem lið í vikunni og stilla hópinn saman fyrir verkefnið.“

Þjálfarinn er ekkert smeykur við reynsluleysi liðsins af svona úrslitaleikjum.

„Svona heilt yfir fara ekkert margir leikmenn oft í þennan leik og því eru flestallir inni á vellinum með sams konar reynslu af svona bikarúrslitaleikjum.“

Jóhann Kristinn vill meina að ef liðið nær fram því framlagi sem hann ætlast til af leikmönnum liðsins eigi það að fara með sigur af hólmi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×