Fótbolti

Hjálmar og félagar gefa ekkert eftir í titilbaráttunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjálmar Jónsson.
Hjálmar Jónsson. Mynd/AFP
Hjálmar Jónsson og félagar í IKF Gautaborg unnu 3-1 sigur á Elfsborg í dag í mikilvægum leik í toppbaráttu sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Með þessum sigri komst IKF Gautaborg upp að hlið Helsingborg og Malmö á toppnum. Öll lið hafa nú 38 stig en bæði Helsingborg og Malmö eiga leik inni.

IKF Gautaborg ætlar ekki að gefa neitt eftir í titilbaráttunni í Svíþjóð en það eru enn eftir tíu umferðir af deildarkeppninni. Hjálmar Jónsson lék allan leikinn í miðverðinum en hann fékk gult spjald strax á 18. mínútu leiksins.

Tobias Hysén skoraði tvö mörk fyrir IKF Gautaborg en liðið komst í 2-0 með tveimur mörkum á fyrstu 14 mínútum í seinni hálfleik. Hysén skoraði fyrsta markið  en Adam Johansson bætti öðru við.

IKF missti Jakob Johansson af velli með rautt spjald á 70. mínútu og sex mínútum síðar minnkaði Stefan Ishizaki muninn. Jon Jönsson hjá Elfsborg fékk rautt spjald á 88. mínútu og þá var aftur orðið jafnt í liðum. Tobias Hysén innsiglaði síðan sigur IFK í uppbótartíma leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×