Golf

Óðinn Þór sigraði í Þorlákshöfn eftir frábæran hring

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Óðinn Þór, þriðji frá vinstri, lék á 68 höggum í dag.
Óðinn Þór, þriðji frá vinstri, lék á 68 höggum í dag. Mynd/GSÍ

Keppni á Íslandsbankamótaröð unglinga í golfi er í fullum gangi á Þorláksvelli í Þorlákshöfn. Leikið er í þremur aldursflokkum hjá báðum kynjum og í morgun léku tveir aldursflokkar hjá strákunum.

Í drengjaflokki, 15-16 ára, fagnaði Óðinn Þór Ríkarðsson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar sigri en hann lék frábærlega í dag. Óðinn lék síðari hringinn í mótinu á 68 höggum eða þremur höggum undir pari. Hann lék fyrri hringinn í mótinu á 74 höggum og lék því samtals á pari í mótinu. Þrír kylfingar úr Golfklúbbnum Keili, þeir Henning Darri Þórðarson, Bigir Björn Magnússon og Gísli Sveinbergsson urðu jafnir í 2.-4. sæti á samtals þremur höggum yfir pari.

Í strákaflokki, 14 ára og yngri, fór Kristján Benedikt Sveinsson úr Golfklúbbnum Hamar á Dalvík með sigur af hólmi. Hann lék samtals á 150 höggum eða átta höggum yfir pari Þorláksvallar. Það verður að teljast fínn árangur hjá Kristjáni enda er ennþá snjór norðan heiða og ekki hægt að leika golf nema við æfingar innandyra. Annar kylfingur frá Hamar á Dalvík, Arnór Snær Guðmundsson, varð annar á tíu höggum yfir pari. Aron Atli Bergmann Valtýsson úr Keili varð þriðji á 13 höggum yfir pari.

Keppni er enn í fullum gangi og ljúka fjórir flokka keppni nú síðdegis.

Leikið var á Þorláksvelli í Þorlákshöfn.Mynd/GSÍ

Lokastaða efstu kylfinga í drengjaflokki, 15-16 ára:

1. Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG 74-68=142 par

2.-4. Henning Darri Þórðarson, GK 73-72=145 +3

2.-4. Birgir Björn Magnússon, GK 72-73=145 +3

2.-4. Gísli Sveinbergsson, GK 71-74=145 +3

Strákaflokkur, 14 ára og yngri:

1. Kristján Benedikt Sveinsson, GHD 71-79=150 +8

2. Arnór Snær Guðmundsson, GHD 74-78=152 +10

3. Aron Atli Bergmann Valtýsson, GK 76-79=155 +13




Fleiri fréttir

Sjá meira


×