Fótbolti

Atletico mun styðja ákvörðun Falcao

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Forráðamenn Atletico Madrid ætla ekki að standa í vegi fyrir Falcao ákveði hann að fara annað nú í lok tímabilsins.

Falcao hefur verið sterklega orðaður við Monaco í Frakklandi á undanförnum vikum en einnig við Manchester United og Chelsea í Englandi.

Miguel Angel Gil Marin, framkvæmdarstjóri Atletico, sagði að félagið hefði lofað kappanum að hann fengi að fara gegn því að hjálpa liðinu að komast í Meistaradeild Evrópu.

Hann kveið því ekki að missa Falcao og sagði að félagið væri vant því að finna sterka leikmenn.

„Atletico hefur áður fundið eftirmenn Fernando Torres, Diego Forlan og Sergio Agüero. Og nú er komið að Falcao.“

„Við vitum ekki hvern við munum fá en við vitum að Atletico verður með sterkt lið á næsta tímabili. En það er ljóst að Atletico mun styðja þá ákvörðun sem Falcao tekur í sumar.“

Hann hefur skorað alls 70 mörk á tveimur tímabilum með Atletico.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×