Fótbolti

Setti hann í samskeytin eftir fimmtán sekúndur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
David James ásamt félaga sínum í Abu Dhabi. Glöggir taka eflaust eftir því að James er í treyju ÍBV.
David James ásamt félaga sínum í Abu Dhabi. Glöggir taka eflaust eftir því að James er í treyju ÍBV. Mynd/Twitter
Karlalið ÍBV í knattspyrnu er þessa dagana í æfingaferð í Bournemouth á Englandi. Liðið vann í gær 2-0 sigur á varaliði Bournemouth í æfingaleik.

Gunnar Már Guðmundsson kom ÍBV yfir úr vítaspyrnu eftir 11. mínútna leik eftir að brotið var á Ian Jeffs. Leiddu Eyjamenn með einu marki í hálfleik.

Tveir Englendingar komu til móts við lið Eyjamanna á Englandi og komu við sögu í leiknum í gær. Annar þeirra, James Freny, kom inná í hálfleik og var ekki lengi að láta að sér kveða.

Samkvæmt leiklýsingu Eyjamanna skoraði hann glæsilegt mark eftir 15 sekúndur í síðari hálfleik þegar hann „krullaði boltann upp í samskeytin". Leiknum lauk sem fyrr segir með tveggja marka sigri gestanna.

David James kom ekkert við sögu hjá ÍBV í gær. Kappinn er staddur í Abu Dhabi en verður kominn til Englands þegar ÍBV mætir Portsmotuh í æfingaleik þann 16. apríl. Guðjón Orri Sigurjónsson og Elías Fannar Stefnisson skiptu hálfleikjunum á milli sín í gær.

Reikna má með því að þjálfari ÍBV, Hermann Hreiðarsson, nýti tækifærið ytra til þess að skoða nokkra erlenda leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×