Fótbolti

Cazorla: Spænska landsliðið er ekki á niðurleið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Santi Cazorla, leikmaður Arsenal og spænska landsliðsins í fótbolta, hefur engar áhyggjur af því að 1-1 jafntefli Spánverja á móti Finnum á heimavelli í undankeppni HM á föstudagskvöldið, séu merki um að gósentíð spænska liðsins sé að enda.

Spænska landsliðið hefur þegar tapað fjórum stigum í sínum riðli og þarf að vinna Frakka í París á morgun til að missa franska landsliðið ekki of langt frá sér en Frakkar eru nú með tveggja stiga forystu á toppi riðilsins.

„Það er ekkert vit í því að efast um styrk liðsins eftir eitt jafntefli. Það er engin gósentíð að enda því það er mikið hungur ennþá eftir í þessu liði. Við viljum vinna fleiri titla og það er ekki hægt að tala um að spænska landsliðið sé á niðurleið," sagði Santi Cazorla.

„Staðan er þannig að við megum ekki misstíga okkur enn frekar en það breytir ekki því að við förum í alla leiki til þess að vinna. Við vitum að við þurfum góðan leik á móti Frökkum því þar er lið sem er á góðu skriði," sagði Cazorla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×