Fótbolti

Tito Vilanova snýr til baka fyrir mánaðarlok

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Svo virðist sem að Tito Vilanova, knattspyrnustjóri Barcelona, muni snúa aftur til starfa þann 25. mars næstkomandi.

Vilanova hefur dvalið í New York síðan í janúar þar sem hann hefur verið í krabbameinsmeðferð. Hann greindist fyrst með meinið árið 2011 en það tók sig upp í desember síðastliðnum.

Jordi Roura, einn aðstoðarmanna Vilanova, hefur stýrt Barcelona í fjarveru hans en liðið vann í vikunni frækinn 4-0 sigur á AC Milan í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Ítalarnir höfðu unnið fyrri leikinn á heimavelli, 2-0.

Carles Rexach, fyrrum þjálfari hjá Barcelona, sinnir nú ráðgjafastörfum fyrir félagið og hann sagði við spænska fjölmiðla að Vilanova muni snúa aftur þann 25. mars næstkomandi.

Barcelona er með þrettán stiga forystu á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar en er úr leik í spænsku bikarkeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×