Eyjamenn gerðu upp Heimaeyjargosið og lýstu söknuði vegna byggðarinnar og landsins sem hvarf undir hraun og ösku í þættinum „Um land allt"´á Stöð 2 í kvöld. Þetta var fjórði og síðasti þátturinn sem sérstaklega var helgaður eldgosinu árið 1973 og sjá má hann í heild sinni hér að ofan.
Bæjarstjórinn, Elliði Vignisson, var spurður hvort Eyjamenn hefðu gert minna út á eldgosið en efni stóðu til í ljósi þess að hér varð heimsviðburður og svaraði hann því til að það hefði tekið samfélagið tugi ára að komast á þann stað að geta og vilja að fara nýta þau tækifæri.
„Stór hluti af bæjarbúum upplifði þessar hörmungar sem við erum að ræða og það er ekki sjálfgefið að fólk vilji fara að hagnast á hörmungunum. Það tekur ákveðinn tíma að þetta sár grói. Nú erum við komin á þann tímapunkt að geta farið að njóta stöðunnar," sagði Elliði.

Upprifjunin hefur kallað fram tár og margt af því sem fram hefur komið í þáttunum höfðu viðmælendur ekki rætt um sín á milli í öll þessi 40 ár, eins og hjónin Anna Jóhannsdóttir og Ragnar Þór Baldvinsson.
„Við höfum aldrei nokkurn tímann talað um þessa hluti og ég hélt að ég myndi ekki bregðast svona við. En svona eru hlutirnir. Bara mannlegir," sagði Ragnar.
Þau hjón upplýstu að þegar þau færu í bíltúr um Heimaey þá færu þau nánast aldrei upp á hraun. Þau færu niður á bryggju og um gamla bæinn en ekki upp á hraun og það væri ómeðvitað.