Fótbolti

Endar Messi ferillinn í Argentínu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi
Lionel Messi Mynd/NordicPhotos/Getty
Lionel Messi skrifaði undir nýjan samning við Barcelona í vikunni og er nú samningsbundinn Katalóníufélaginu fram til loka júní 2018 eða fram yfir tvær næstu heimsmeistarakeppnir í Brasilíu og Rússlandi.

Messi er 25 ára gamall í dag og verður þrítugur þegar samningurinn rennur út. Það má búast við því að hann geri nýjan samning við Barcelona eftir þennan en það er að heyra á orðum argentínska snillingsins að hann vilji enda ferilinn í heimalandinu.

„Ég hef sagt það áður að það kom ekki til greina að spila með öðru evrópsku félagi en Barcelona. Um leið vil ég ekki útiloka það að enda ferilinn í Argentínu," sagði Lionel Messi í viðtali á heimasíðu Barcelona.

Lionel Messi kom til Barcelona árið 2000 þegar hann var aðeins þrettán ára gamall en hafði áður verið í herbúðum argentínska félagsins Newell's Old Boys.

Lionel Messi hefur alls skorað 298 mörk og gefið 114 stoðsendingar í 363 leikjum fyrir Barcelona í öllum keppnum þar af 45 mörk í aðeins 34 leikjum til þessa á núverandi tímabili. Hann er á góðri leið með að bæta met sitt frá því í fyrra þegar hann skoraði 73 mörk í 60 leikjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×