Hvað varð um samsærið? Ólafur Stephensen skrifar 22. ágúst 2012 00:01 Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Gunnari Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, fyrir brot á bankaleynd og brot í opinberu starfi. Gunnar er talinn hafa fengið starfsmann Landsbankans til að útvega sér gögn um fjármál Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns, sem síðan hafi verið komið til DV. Bankastarfsmaðurinn er líka ákærður. Frá þessu sagði Fréttablaðið í gærmorgun. Það kemur svolítið á óvart að enginn hafi enn stigið fram á ritvöllinn og sakað ríkissaksóknara um þátttöku í ógurlegu samsæri gegn Gunnari Andersen. Nóg var nefnilega af slíkum samsæriskenningum í febrúar, þegar stjórn FME vék Gunnari úr starfi. Það er rétt að rifja aðeins upp hver voru rökin fyrir því að Gunnar gæti ekki lengur gegnt starfi forstjóra FME. Hann hafði tekið þátt í því sem starfsmaður Landsbankans árið 2001 að leyna fyrir Fjármálaeftirlitinu tilvist tveggja aflandsfélaga sem tengdust bankanum, en Gunnar sat í stjórn þeirra beggja. Tilgangurinn með rekstri félaganna var að hafa með leynd áhrif á efnahagsreikning bankans. Það er refsivert að villa um fyrir Fjármálaeftirlitinu og maður, sem samkvæmt núgildandi lögum yrði uppvís að slíku, gæti ekki einu sinni orðið stjórnandi í fjármálafyrirtæki og enn síður forstjóri FME. Gunnar viðurkenndi að hafa ekki veitt upplýsingarnar, en taldi ekkert rangt við það. Við svo búið var auðvitað trúverðugleiki bæði forstjórans og stofnunarinnar í uppnámi, því að menn hlutu að spyrja hvernig hann myndi taka á sambærilegum málum. Þetta lá allt fyrir þegar Gunnari Andersen var sagt upp störfum. Engu að síður settu málsmetandi einstaklingar á prent ævintýralegar samsæriskenningar um ástæðurnar. Bröttust var líklega „greining" Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, lektors við Háskóla Íslands, og Roberts Wade, prófessors við London School of Economics. Þau skrifuðu grein á ensku í Le Monde Diplomatique, þar sem því var haldið fram að stjórn FME hefði verið í „herferð" gegn Gunnari og sú „augljósa ástæða" tilgreind að meira en hundrað fjármálamenn og stjórnmálamenn, sem hefðu orðið ævintýralega ríkir í uppsveiflunni en væru nú í rannsókn hjá sérstökum saksóknara, væru Gunnari og FME reiðir og vonuðust til að það myndi grafa undan málatilbúnaði saksóknarans að kasta rýrð á Gunnar. Í greininni gleymdist reyndar að útskýra af hverju stjórn FME, sem fram að því hafði sent tugi mála gegn fjármálamönnum til saksóknara, hefði átt að ganga erinda þeirra. Þorvaldur Gylfason, prófessor við HÍ, átti líka ágætan sprett þegar hann birti á bloggi sínu bréf til Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara, en þar sagðist hann viss um að yrði ákvörðun stjórnar FME leyft að standa, myndi hún grafa undan orðspori Íslands erlendis og jafnframt trausti heima fyrir af því að hún gæfi til kynna að „ríkisstjórnin, eða hluti hennar, sé enn í einni sæng með bankamönnunum". Hann sagðist vona að efnahagsmálaráðherrann ræki stjórnina og endurréði Gunnar. Af hverju nota þessir ágætu fræðimenn nú ekki allt vitið í kollinum á sér til að rökstyðja að ríkissaksóknari sé líka handbendi bankamannanna? Eða getur verið að þau hafi tekið skakkan pól í hæðina og að í raun hafi trúverðugleika FME verið bjargað í febrúar? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Gunnari Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, fyrir brot á bankaleynd og brot í opinberu starfi. Gunnar er talinn hafa fengið starfsmann Landsbankans til að útvega sér gögn um fjármál Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns, sem síðan hafi verið komið til DV. Bankastarfsmaðurinn er líka ákærður. Frá þessu sagði Fréttablaðið í gærmorgun. Það kemur svolítið á óvart að enginn hafi enn stigið fram á ritvöllinn og sakað ríkissaksóknara um þátttöku í ógurlegu samsæri gegn Gunnari Andersen. Nóg var nefnilega af slíkum samsæriskenningum í febrúar, þegar stjórn FME vék Gunnari úr starfi. Það er rétt að rifja aðeins upp hver voru rökin fyrir því að Gunnar gæti ekki lengur gegnt starfi forstjóra FME. Hann hafði tekið þátt í því sem starfsmaður Landsbankans árið 2001 að leyna fyrir Fjármálaeftirlitinu tilvist tveggja aflandsfélaga sem tengdust bankanum, en Gunnar sat í stjórn þeirra beggja. Tilgangurinn með rekstri félaganna var að hafa með leynd áhrif á efnahagsreikning bankans. Það er refsivert að villa um fyrir Fjármálaeftirlitinu og maður, sem samkvæmt núgildandi lögum yrði uppvís að slíku, gæti ekki einu sinni orðið stjórnandi í fjármálafyrirtæki og enn síður forstjóri FME. Gunnar viðurkenndi að hafa ekki veitt upplýsingarnar, en taldi ekkert rangt við það. Við svo búið var auðvitað trúverðugleiki bæði forstjórans og stofnunarinnar í uppnámi, því að menn hlutu að spyrja hvernig hann myndi taka á sambærilegum málum. Þetta lá allt fyrir þegar Gunnari Andersen var sagt upp störfum. Engu að síður settu málsmetandi einstaklingar á prent ævintýralegar samsæriskenningar um ástæðurnar. Bröttust var líklega „greining" Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, lektors við Háskóla Íslands, og Roberts Wade, prófessors við London School of Economics. Þau skrifuðu grein á ensku í Le Monde Diplomatique, þar sem því var haldið fram að stjórn FME hefði verið í „herferð" gegn Gunnari og sú „augljósa ástæða" tilgreind að meira en hundrað fjármálamenn og stjórnmálamenn, sem hefðu orðið ævintýralega ríkir í uppsveiflunni en væru nú í rannsókn hjá sérstökum saksóknara, væru Gunnari og FME reiðir og vonuðust til að það myndi grafa undan málatilbúnaði saksóknarans að kasta rýrð á Gunnar. Í greininni gleymdist reyndar að útskýra af hverju stjórn FME, sem fram að því hafði sent tugi mála gegn fjármálamönnum til saksóknara, hefði átt að ganga erinda þeirra. Þorvaldur Gylfason, prófessor við HÍ, átti líka ágætan sprett þegar hann birti á bloggi sínu bréf til Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara, en þar sagðist hann viss um að yrði ákvörðun stjórnar FME leyft að standa, myndi hún grafa undan orðspori Íslands erlendis og jafnframt trausti heima fyrir af því að hún gæfi til kynna að „ríkisstjórnin, eða hluti hennar, sé enn í einni sæng með bankamönnunum". Hann sagðist vona að efnahagsmálaráðherrann ræki stjórnina og endurréði Gunnar. Af hverju nota þessir ágætu fræðimenn nú ekki allt vitið í kollinum á sér til að rökstyðja að ríkissaksóknari sé líka handbendi bankamannanna? Eða getur verið að þau hafi tekið skakkan pól í hæðina og að í raun hafi trúverðugleika FME verið bjargað í febrúar?