Handbolti

Valskonur sigurstranglegri

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Annað hvort Hrafnhildur Skúladóttir Val eða Ester Óskarsdóttir ÍBV lyftir bikarnum í dag.
Annað hvort Hrafnhildur Skúladóttir Val eða Ester Óskarsdóttir ÍBV lyftir bikarnum í dag. Mynd/Stefán
Hið spræka lið ÍBV fær það verðuga verkefni að takast á við hið ógnarsterka lið Vals í úrslitum Eimskipsbikars kvenna en leikurinn hefst klukkan 13.30.

Það er valinn maður í hverju rúmi í liði Vals en ÍBV hefur verið að sækja í sig veðrið í vetur og mun örugglega selja sig dýrt í Höllinni í dag.

„Við höfum lent í vandræðum með þær í tvígang í vetur en erum að nálgast þær þannig að þetta verður hörkuleikur," sagði Ester Óskarsdóttir, fyrirliði ÍBV, borubrött fyrir leik.

„Útlendingarnir í okkar liði styrkja okkur mikið. Það var ekkert annað í stöðunni en að fá þær. Valskonur hafa meiri reynslu en við og við þurfum að passa upp á spennustigið. Þetta er nánast landsliðið samt á móti ÍBV enda átta landsliðsmenn í Val á meðan við eigum einn leikmann sem hefur spilað með landsliðinu. Það er samt allt hægt í bikar og það vitum við."

Hrafnhildur Skúladóttir, fyrirliði Vals, veit sem er að þeim er spáð öruggum sigri.

„Mér finnst við vera með besta liðið og við töpum sjaldan. Við förum inn sem stóra liðið en þetta er bikarleikur og við ætlum okkur að vinna," sagði Hrafnhildur sem á von á sterku liði ÍBV.

„ÍBV hefur verið að styrkja sig og eru sterkari. Við vitum að þetta verður erfiður leikur og við verðum að vera tilbúnar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×