Handbolti

Ágúst útilokar ekki að koma heim

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ágúst Þór er með eitt tilboð í höndunum sem stendur en hefur fengið fjölda fyrirspurna að eigin sögn. fréttablaðið/pjetur
Ágúst Þór er með eitt tilboð í höndunum sem stendur en hefur fengið fjölda fyrirspurna að eigin sögn. fréttablaðið/pjetur
„Ég er með tilboð frá Odense í Danmörku að þjálfa kvennaliðið þar og verð að svara því fljótlega. Það er ágætlega spennandi og svo hafa verið fyrirspurnir frá karla og kvennaliðum í Skandinavíu. Það er samt ekkert sem ég er hoppandi spenntur fyrir," sagði Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna og þjálfari norska liðsins Levanger.

Ágúst Þór lætur af störfum hjá norska félaginu í lok tímabilsins og gæti allt eins farið svo að hann komi aftur heim til Íslands.

„Við fjölskyldan þurfum að fara yfir stöðuna og við útilokum ekki að koma bara heim. Okkur langar alveg að vera úti en við ætlum ekki að vera úti bara til að vera úti. Það verður eitthvað spennandi að koma upp."

Kvennalandsliðið náði eftirtektarverðum árangri á HM í Brasilíu í desember. Hefur sá árangur ekki skilað Ágústi neinu?

„Jú, það hefur skilað fjölda fyrirspurna en markaðurinn er erfiður og það er ekki mikið af störfum að losna. Ég gæti eflaust djöflast og fengið eitthvað einhvers staðar. Það er samt líka spennandi að koma heim og vinna með landsliðið á fullu enda spennandi tímar fram undan þar," sagði Ágúst en hann hafði ekki gert upp við sig hvort það yrði við hæfi að þjálfa félagslið hér heima samhliða starfi landsliðsþjálfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×