Fótbolti

Messi vann einvígið við Falcao

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Fyrirgefið, ég er svona góður.
Fyrirgefið, ég er svona góður. Mynd/NordicPhotos/Getty
Barcelona sigraði Atletico Madrid 4-1 í toppslag spænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld. Falcao skoraði fyrsta mark leiksins en Messi skoraði tvö mörk í seinni hálfleik eftir að samherjar hans höfðu komið liðinu yfir fyrir hálfleik, 2-1.

Falcao gerði sitt strax á 31. mínútu þar sem hann stakk vörn Barcelona af áður en hann vippaði boltanum yfir Victor Valdes í markinu og Atletico komið yfir.

Adriano Correia jafnaði metin fimm mínútum síðar með frábæru skoti með vinstri fæti í slána og inn. Algjört draumamark.

Sergio Busquets kom Barcelona yfir rétt fyrir hálfleik þegar hann sýndi mikla yfirvegun í teignum þar sem hann fékk boltann eftir horn. Hann tók sér þann tíma sem þurfti og setti boltann upp í þaknetið af stuttu færi.

Þá var komið að þætti Messi. Alexis Sanchez fann Messi rétt utan vítateigs og þrátt fyrir lítið pláss tókst honum að koma boltanum í netið.

Messi nýtti sér svo skelfileg varnarmistök á 88. mínútu þar sem hann skoraði 17. mark sitt gegn Atletico og 90. mark sitt á árinu 2012.

Barcelona er nú með 9 stiga forystu á toppi deildarinnar. Liðið er með 46 stig í 16 leikjum og með 36 mörk í plús. Atletico er í öðru sæti með 37 stig og Real Madrid kemur þar á eftir með 33 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×