Fótbolti

Nýtt "Man.City" ævintýri í spænska boltanum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Slim.
Carlos Slim. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mexíkanski milljarðamæringurinn Carlos Slim hefur mikinn áhuga á því að fjárfesta ríflega í liði í spænsku deildinni samkvæmt frétt í spænska blaðinu Marca. Það gæti því verið nýtt "Man.City"-ævintýri að fæðast á Spáni.

„Það er á áætlun að fjárfesta mikið í spænskum fótbolta og stefnan er ekki að halda sér í deildinni heldur að vinna titilinn," hefur Marca eftir innanhússmanni hjá Pachuca-fjárfestingafélaginu. Carlos Slim keypti nýverið 30 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Það fylgdi ekki sögunni hvaða félag það er sem Slim hefur áhuga á en spekingar voru fljótir að nefna lið Atletico Madrid en orðrómur var um það í fyrra að "minna" Madridarliðið væri til sölu.

Peningar frá einum ríkasta manni í heimi ættu að hjálpa félagi að ógna risunum Real Madrid og Barcelona og ef marka má frammistöðu Atletico Madrid á þessu tímabili þá vantar ekki mikið upp á þar á bæ.

Atletico Madrid er við hlið Barca í efsta sæti deildarinnar með 25 stig eftir 9 leiki en liðið er með átta stigum meira en nágrannarnir í Real Madrid sem eru í 4. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×