Fótbolti

Ari Freyr: Þurfum að hugsa um góðu punktana

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Gylfi og Ari Freyr á ferðinni í kvöld.
Gylfi og Ari Freyr á ferðinni í kvöld. mydn/vilhelm
Ari Freyr Skúlason átti fínan leik sem vinstri bakvörður íslenska landsliðsins þó hann sé ekki vanur að leika þá stöðu með sínu félagsliði. Ari þurfti að kljást við Xherdan Shaqiri, skærustu stjörnu Sviss, náði að halda honum að mestu niðri.

„Það er alltaf leiðinlegt að tapa en við þurfum að hugsa um alla góðu punktana í leiknum og þeir voru mjög margir," sagði Ari Freyr

„Við töpuðum leiknum en það er margt jákvætt. Við fengum fullt af færum þar sem við hefðum getað skorað áður en þeir skora. Svona er fótboltinn, þetta breytist mjög fljótt.

„Þeir eru með frábæra leikmenn en mér fannst við ná að halda þeim í skefjum þokkalega vel. Þeir reyndu einhver langskot, sérstaklega í fyrri hálfleik en svo skora þeir mark og brjóta ísinn og þá verða þeir rólegri," sagði Ari sem þakkaði Birki Bjarnasyni fyrir að hjálpa sér við að halda Shaqiri niðri.

„Birkir hjálpaði mér rosalega mikið í kvöld. Ég spila þessa stöðu ekki venjulega og þetta situr ekkert í vöðvaminninu en mér fannst ég standa mig ágætlega. Ég átti nokkrar lélegar sendingar í seinni hálfleik samt.

„Auðvitað erum við svekktir eftir leikinn og erum svekktir í kvöld en á morgun horfum við fram á veginn. Við viljum alltaf fá þrjú stig og við hefðum getað það í kvöld. Ef við hefðum brotið ísinn á undan þeim þá er aldrei að vita hvernig hefði farið," sagði Ari að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×