Fótbolti

Messi: Skiptir meira máli að vera góður maður en bestur í fótbolta

Hin lítilláta stórstjarna Barcelona, Lionel Messi, lætur blaðamenn ekki leiða sig í gildrur og þess vegna hefur hann ákveðið að tjá sig ekkert um Jose Mourinho, þjálfara Real Madrid.

Messi segir að það eina sem skipti sig máli í boltanum sé að vinna titla.

"Að vinna titla skiptir mig miklu meira máli en einstaklingsverðlaun og einhver met. Ég hef meiri áhuga á því að vera góður maður en besti knattspyrnumaður heims. Þegar ég hætti vil ég að fólk minnist mín sem góðs manns. Það er gaman að skora en ég vil líka eignast vini á ferlinum," sagði Messi sem hefur ekki enn tekið ranga beygju á ferlinum.

"Það er vissulega gaman að fá einstaklingsverðlaun og ég er þakklátur fyrir þau öll. Ég myndi samt ekki vinna neitt án félaga minna. Ég er heppinn að spila í þessu liði með þessum leikmönnum. Ég er bara að reyna að hjálpa liðinu."

Fjölmiðlar hafa áður reynt að veiða Messi í að segja eitthvað misjafnt um hinn umdeilda þjálfara Real Madrid en án árangurs.

"Ég get ekki sagt neitt um hann þar sem ég þekki hann ekki neitt og hef aldrei talað við hann. Ég get bara talað um það sem hann hefur afrekað og það er heilmikið. Ég veit líka að leikmenn hans tala vel um hann en ég þekki hann ekki.

"Ég segi venjulega það sem mér finnst en sé enga ástæðu til þess að koma mér í vandræði. Ég hef engan áhuga á því að búa til einhver leiðindi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×