Fótbolti

Lið Þóru og Söru ekki lengur í peningavandræðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir eftir landsleik á dögunum.
Sara Björk Gunnarsdóttir eftir landsleik á dögunum. Mynd/Daníel
Íslendingaliðið LDB Malmö er í góðum máum á toppi sænsku kvennadeildarinnar í fótbolta og nú berast fleiri góðar fréttir af liði þeirra Þóru B. Helgadóttur og Söru Bjarkar Gunnarsdóttur.

Fyrr í sumar voru fréttir af slæmri fjárhagsstöðu LDB Malmö og að félagið væri hugsanlega að stefna í gjaldþrot. Niclas Carlnén yfirmaður félagsins segir nú að mestu peningavandræðin séu að baki og að félagið eigi ekki lengur hættu á því að enda í gjaldþroti.

„Þú getur ekki orðið gjaldþrota nema ef þú skuldar pening. Við skuldum engan pening," sagði Niclas Carlnén og hann segir að félagið eigi að geta haldið öllum sínum leikmönnum á næsta tímabili.

„Við erum að ræða við nokkra leikmenn en við tölum ekki um einstaka leikmenn fyrr en að við erum búin að ganga frá öllum lausum endum," sagði Carlnén.

LDB Malmö er með fimm stiga forskot á Tyresö FF þegar aðeins níu stig eru eftir í pottinum. Þóra Björg Helgadóttir á möguleika á því að verða sænskur meistari þriðja árið í röð og Sara Björk Gunnarsdóttir er á sínu öðru ári með liðinu.

„Fjárhagsvandræðin heyra nú sögunni til. Okkur vantar enn 1,3 milljónir fyrir næsta ár en við erum að vinna að ýmsum lausnum. Við eigum að geta reddað þessum peningum sem vantar upp á," sagði Carlnén.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×