Enski boltinn

Spurs og Real Madrid komast að samkomulagi um vistaskipti Modric

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Króatinn Luka Modric er á leið í herbúðir Real Madrid. Brotthvarf miðjumannsins frá Tottenham hefur legið í loftinu í allt sumar.

Félagaskiptin eru staðfest á heimasíðu Tottenham en ekki kemur fram hvert kaupverð kappans er. Talið er að það sé í kringum 30 milljónir punda eða sem nemur um sex milljörðum íslenskra króna.

„Luka hefur verið frábær leikmaður hjá okkur og þó við séum svekktir með að leiðir skilji er mikil ánægja með að nýja lið hans sé Real Madrid," segir stjórnarformaðurinn Daniel Levy á heimasíðu Spurs.

Florentino Perez, forseti Real Madrid, lýsir sömuleiðis yfir ánægju sinni með komu Modric auk þess sem greint er frá samningi félaganna um samvinnu næstu árin.

Modric gekk til liðs við Tottenham frá Dinamo Zagreb sumarið 2008. Hann lék 160 leiki og skoraði 17 mörk með Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×