Golf

Axel kláraði á fimm höggum undir pari á Írlandi - er í 10. til 11. sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Axel Bóasson.
Axel Bóasson. Mynd/GVA
Keilismaðurinn Axel Bóasson stóð sig frábærlega á Evrópumóti áhugamanna í golfi sem fer fram á Írlandi. Axel lék holurnar 72 á fimm höggum undir pari og er sem stendur í 10. til 11. sæti sem er frábær árangur.

Axel lék lokahringinn í dag á 70 höggum eða á 2 undir pari. Hann lék fyrsta hringinn á 71 höggi, annan hringinn á 74 og þriðja hringinn á 68 höggum og endaði því á fimm höggum undir pari.

Axel fékk sex fugla í dag sem er það besta á einum hring hjá honum á mótinu en fjórir skollar spilltu þó aðeins fyrir honum. Axel byrjaði daginn á tveimur skollum en lét það ekki á sig fá og spilaði ellefu síðustu holurnar á fjórum höggum undir pari.

Það er eitthvað af kylfingum sem eiga eftir að ljúka leik í dag og það getur sett strik í reikninginn hvað varðar lokastöðu Axel á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×