Fótbolti

Birkir Már lagði upp tvö mörk í sigri Brann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson. Mynd/AFP
Landsliðsbakvörðurinn Birkir Már Sævarsson lagði upp tvö fyrstu mörk Brann í 3-2 sigri á Haugesund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Næsti leikur Birkis er með íslenska landsliðinu á móti Færeyjum á Laugardalsvellinum á miðvikudaginn.

Birkir Már er að láta til sín taka í ágústmánuði því hann skoraði eitt marka Brann í síðasta leik þegar liðið vann 4-0 útisigur á Stabæk.

Amin Askar skoraði fyrsta mark Brann á 38. mínútu þegar hann setti boltann inn af stuttu færi eftir flotta sendingu frá Birki Má.

Fredrik Nordkvelle skoraði annað markið á 59. mínútu eftir aðra stoðsendingu frá Birki. Amin Askar bætti síðan við öðru marki tviemur mínútum síðar og staðan var orðin 3-0 fyrir Brann.

Nikola Djurdjic skoraði tvö mörk fyrir Haugesund, á 67. og 77. mínútu og minnkaði muninn í eitt mark, 3-2. Leikmenn Brann héldu hinsvegar út og fögnuðu sigri.

Brann er í 4. sæti deildarinnar með 29 stig eftir þennan sigur en með honum fór liðið upp fyrir Haugesund sem er nú í 5. sæti einu stigi á eftir Brann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×