Golf

Birgir á meðal þeirra efstu í Danmörku | -5 þegar keppni er hálfnuð

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. seth
Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, byrjar vel á Áskorendamótaröðinni í golfi, en keppt er í Horsens í Danmörku að þessu sinni. Birgir er á meðal efstu manna þegar þetta er skrifað en hann er samtals á 5 höggum undir pari en margir eiga eftir að ljúka leik í dag. Áskorendamótaröðin er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu en Evrópumótaröðin er sú sterkasta.

Birgir lék fyrsta hringinn í gær á 69 höggum eða 3 höggum undir pari vallar. Hann var á 70 höggum í dag eða 2 höggum undir pari. Alls hefur hann fengið 8 fugla (-1), 22 pör, 5 skolla (+1) og 1 örn (-2). Sænski kylfingurinn Klas Eriksson er á besta skorinu það sem af er, -12 samtals, en hann setti vallarmet á fyrsta hringnum þar sem hann lék á 62 höggum eða -10. Birgir er í þriðja sæti á -5.

Þriðji keppnisdagur fer fram á morgun og keppni lýkur á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×